Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Lífæð Íslendinga í uppnámi verði verkfall

31.01.2016 - 19:59
Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint - Mynd: RÚV / RÚV
Íslendingar ættu að hafa áhyggjur af yfirvofandi verkfalli vélstjóra og skipstjóra á kaupskipum, segir upplýsingafulltrúi Eimskips. Verkfall gæti nær stöðvað innflutning á mat til landsins. Formaður félags vélstjóra býst við að til verkfalls komi.

 

Samningar vélstjóra og skipstjóra á kaupskipum hafa verið lausir frá síðasta sumri. Fundað verður í deilunni á morgun og verkfall verið boðað á miðnætti annað kvöld. „Það er ekkert í kortunum um að við séum að fara að leysa þetta,“ segir Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra. „Ég tel nú eins og staðan er í dag og samkvæmt því sem við höfum verið að reyna að ræða á ótalmörgum fundum, þá sé ég ekki annað í stöðunni en að þetta skelli á þetta verkfall,“ segir Guðmundur.

 

Um hundrað vélstjórar og skipstjórar leggja niður störf annað kvöld ef ekki semst fyrir þann tíma. Þeir fara meðal annars fram á hækkun grunnlauna en ekki fæst uppgefið hve mikla.

Guðmundur segir að verkfallið myndi stöðva siglingar fimm skipa Emskips og tveggja skipa Samskipa. „Ég er nú ekki alveg með það hvað þetta tekur langan tíma en ég held að það séu minnsta kosti þrjú eða fjögur skip sem stoppa strax í næstu viku,“ segir Guðmundur. 

 

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskip, segir að verkfall myndi hafa víðtæk áhrif. „Útflutningur á ferskum fiski myndi stöðvast mjög fljótlega ef ekki strax. Þetta hefur áhrif á dagvöruverslun. Iðnaður myndi finna fyrir þessu,“ segir Ólafur. „Ég held að við sem Íslendingar ættu að hafa áhyggjur af þessu því þetta er náttúrulega lífæð okkar til landsins og þegar farið er í verkfall svona ofarlega í fæðukeðjunni eins og við getum sagt, þá seytlar þetta niður mjög fljótlega. Þannig að við höfum að sjálfsögðu áhyggjur af þessu,“ segir Ólafur William. 

 

Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innnes, segir að verkfall myndi hafa áhrif á innflutning á ferskri matvöru, einkum grænmeti og ávöxtum. Eftir eina til tvær vikur gæti farið að gæta vöruskorts. 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV