Líf og fjör um allt land

Mynd: RÚV / RÚV

Líf og fjör um allt land

30.07.2016 - 21:00

Höfundar

Mikill fjöldi fólks hefur lagt leið sína á hinar ýmsu útihátíðir og fjölskylduskemmtanir um helgina.

Landsmót Ungmennafélags Íslands var sett í Borgarnesi í gær og stendur yfir helgina. Um tíu þúsund manns eru á staðnum. Keppt er í fjölbreyttum greinum, svo sem fótbolta og sundi, stafsetningu og götufótbolta. Gestir voru hæstánægðir með mótið.

Það var ljúf stemning á Sæludögum í Vatnaskógi í dag. Um þúsund manns koma þar saman á fjölskylduhátíð um helgina. 

Heldur færri voru á Hlöðum á Hvalfjarðaströnd á Gaman saman hátíðinni. Gestir spreyttu sig meðal annars á Rythma dans whoop undir ljúfum tónum.

Það hefur verið mikið að gera hjá lögreglunni á Suðurlandi síðasta sólarhring. Umferð um Suðurlandsveg var mjög þung í gær og fjórir gistu fangageymslu á Selfossi vegna ölvunartengdra mála.

Mikið var um dýrðir á Neistaflugi í Neskaupstað í gær. Haldin var skrúðganga frá hverfum bæjarins að sameiginlegu grilli í miðbænum. Hátíðin var svo sett stuttu seinna við mikla gleði viðstaddra. Að sögn lögreglunnar voru 150 manns á balli hátíðarinnar í gærkvöldi. Ballið fór að mestu vel fram en ein líkamsárás var kærð til lögreglu.

Veðrið hefur leikið við hátíðargesti á Flúðum. Í dag var fjölskyldu- og barnaskemmtun í blíðskaparveðri ásamt Traktora tryllingnum, þar sem bílstjórar óku drullubraut lystilega.