Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Líður eins og landsliðinu“

Mynd: EPA-EFE / EPA

„Líður eins og landsliðinu“

11.02.2020 - 19:50

Höfundar

Hildur Guðnadóttir tónskáld segir „æðislegt að finna hvað það kemur mikill stuðningur og ást að heiman.“ Hún segist alltaf hafa látið hjartað ráða för í verkefnavali og býst ekki við að Óskarsverðlaunin breyti því.

Hildur hlaut sem kunnugt er Óskarsverðlaun á sunnudag og hafði vikurnar á undan hreppt hver stórverðlaunin á fætur öðrum. Íslendingar fylgdust vitaskuld með sigurgöngunni af ákefð. 

„Ég hef fundið ótrúlega sterkt fyrir því. Mér líður eins og landsliðinu,“ segir Óskarsverðlaunahafinn nýbakaði og hlær. 

„Það er æðislegt að finna hvað það kemur mikill stuðningur og mikil ást að heiman. Það er ótrúlega mikilvægt að finna hvað ræturnar ná djúpt og þótt ég sé búin að vera lengi í burtu, hvað tengingin heim er samt sterk. Það hlýjar manni sem svo brjálæðislega um hjartarætur að finna fyrir þessu og ég þakka hjartanlega fyrir mér.“  

Anna Marsbil Clausen settist niður með Hildi morguninn eftir verðlaunaathöfnina og ræddi ítarlega við hana um hið viðburðaríka ár sem er að baki; tónlistina sem hún samdi fyrir verðlaunaþættina Chernobyl og verðlaunamyndina Joker; sigurgöngu undanfarinna vikna, glerþakið sem konur í kvikmyndaiðnaðinum, þar á meðal hún sjálf hafa oft rekið sig á; samstarfið við Jóhann Jóhannsson og hvort Óskarsverðlaunin komi til með að hafa áhrif á verkefnavalið.  

„Hjartað hefur alltaf ráðið för í þeim verkefnum sem ég hef tekið að mér og ég held að þessi staða sem ég er í í dag komi ekki til með að breyta því neitt. Ég hef alltaf verið staðföst í því sem ég geri, ekki látið umhverfi mitt hafa mikil áhrif á stefnuna sem ég er á og held ég reyni að halda áfram á þeirri braut. Ég reyni að velja verkefni með það til hliðsjónar að ég geti farið í það af öllu hjarta og sál. Þannig  verkefni er ekki komið inn á borð hjá mér eins og er svo ég ætla að taka smá pásu þangað til ég veit hvað það verður.“ 

Horfa má á viðtalið í fullri lengd hér að ofan.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Fann fyrir mikilli ást og stuðningi í salnum“

Tónlist

Kvennakraftur fullkomnaður á sviðinu

Kvikmyndir

Hildur um sigurinn: Þetta var býsna brjálað augnablik

Menningarefni

Hildur vann Óskarinn fyrst Íslendinga