Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Líður eins og Garðari Hólm að halda tónleika

Mynd: RÚV / RÚV

Líður eins og Garðari Hólm að halda tónleika

02.06.2017 - 10:22

Höfundar

„Í rauninni er maður alltaf að upplifa sig á vatnaskilum sem listamaður,“ segir Ragnar Kjartansson, sem opnar sýninguna Guð, hvað mér líður illa í Hafnarhúsinu á laugardag. Þetta er fyrsta safnsýning hans hér á landi og inniheldur valin verk frá árinu 2004 til dagsins í dag.

Ragnar Kjartansson hefur á undanförnum árum skipað sér í fremstu röð íslenskra myndlistarmanna og er líklega þekktasti íslenski listamaðurinn af sinni kynslóð á alþjóðavettvangi. Hann vinnur gjarnan með innsetningar og gjörninga sem byggja á endurtekningu og vísa oft í heim leikhúss og tónlistar.

Eins og Henry Higgins og Eliza Doolittle

Ragnar segir sýninguna í Hafnarhúsinu eins konar þversnið í gegnum feril hans. Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson en þeir Ragnar hafa fylgst að síðan á unglingsárum.  

„Hann hefur haft mikil áhrif á mig sem listamann. Þegar hann fór að læra sýningarstjórnun og svoleiðis. Ég hef stundum sagt í gríni að ég sé eins og Eliza Doolittle og hann eins og Henry Higgins. Hann velur verk úr ferlinum og þau mynda einhvers konar narratívu, sem hann er betri í að útskýra en ég.“

Listaverk um listaverk

Í fyrra voru haldnar yfirlitssýningar á verkum Ragnars í Barbican-listamiðstöðinni í London og Hirshhorn-safninu í Washington. Ragnar segir sýninguna í Hafnarhúsinu vera af öðrum toga. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gjörningar Ragnars sækja mikið í tón- og leiklist.

„Þessi myndi ekki flokkast undir hefðbundna yfirlitssýningu heldur skautar hún í gegnum einhverja tilfinningu í verkum  mínum. Þau fjalla mikið um listina sjálfa, sviðssetningu hlutanna og listaverk um listaverk.“

Spurður hvort hann sé ánægðari með einhver verk en önnur nefnir Ragnar Heimsljós – líf og dauði listamanns. 

„Ég er mjög spenntur að sýna það. Þetta er verk sem ég lít á sem kúbískt málverk af skáldsögunni Heimsljósi og ég er mjög ánægður með það, já. Annars sýnir maður ekkert nema maður sé ánægður með það. Maður getur ekki gert fólki það að sýna eitthvað sem maður er ekki ánægður með sjálfur.“

Mikilvægt að vera í Reykjavíkursenunni

Ragnar segir að nær öll sín list spretti upp úr einhvers konar samtali við aðra, einkum úr listasenunni í Reykjavík. „Maður býr hérna og er í samtali við listamennina hérna og þannig þróast einhver sýn og verkin verða til, hugmynd býr til aðra hugmynd og svo framvegis.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eitt verkanna á sýningunni er spánnýtt og verður komið fyrir utan á Hafnarhúsinu. „Þetta eru eldtungur og er eitthvað sem hefur alltaf fylgt mér. Ég hef oft notað þetta og sett utan á hús þegar ég er að sýna.“

Á undanförnum árum hefur Ragnar líka starfað meira á alþjóðasviðinu en áður og segir það eflaust hafa haft áhrif á sig sem listamann. „Fyrst og fremst eru það tækifærin og að kynnast listheiminum út um allar trissur, það gefur manni kannski aukið sjálfsöryggi.“ Hann viðurkennir hins vegar að sjálfsefinn sé líka til staðar þegar hann líkir sér við eina harmrænustu persónu íslenskra bókmennta. „En svo er þetta mjög fyndið að vera að gera þessa sýningu, þetta er svona Garðar Hólm kemur og heldur tónleika. Mér líður þannig.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

 

Rætt var við Ragnar í Menningunni í Kastljósi. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

 

Tengdar fréttir

Myndlist

„Eins og að horfa á eigin jarðarför“

Menningarefni

Ragnar Kjartanson les í fangelsi Oscars Wilde

Menningarefni

Ragnar „einn af færustu listamönnum samtímans“

Menningarefni

Ragnar Kjartansson útnefndur Borgarlistamaður