Ragnar Kjartansson hefur á undanförnum árum skipað sér í fremstu röð íslenskra myndlistarmanna og er líklega þekktasti íslenski listamaðurinn af sinni kynslóð á alþjóðavettvangi. Hann vinnur gjarnan með innsetningar og gjörninga sem byggja á endurtekningu og vísa oft í heim leikhúss og tónlistar.
Eins og Henry Higgins og Eliza Doolittle
Ragnar segir sýninguna í Hafnarhúsinu eins konar þversnið í gegnum feril hans. Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson en þeir Ragnar hafa fylgst að síðan á unglingsárum.
„Hann hefur haft mikil áhrif á mig sem listamann. Þegar hann fór að læra sýningarstjórnun og svoleiðis. Ég hef stundum sagt í gríni að ég sé eins og Eliza Doolittle og hann eins og Henry Higgins. Hann velur verk úr ferlinum og þau mynda einhvers konar narratívu, sem hann er betri í að útskýra en ég.“
Listaverk um listaverk
Í fyrra voru haldnar yfirlitssýningar á verkum Ragnars í Barbican-listamiðstöðinni í London og Hirshhorn-safninu í Washington. Ragnar segir sýninguna í Hafnarhúsinu vera af öðrum toga.