Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Leystur undan skyldum eftir handtöku

Mynd með færslu
 Mynd:
Lögreglumaður, sem handtók konu í miðborg Reykjavíkur um helgina, hefur verið leystur undan vinnuskyldu á meðan ríkissaksóknari fer yfir handtökuna. Harkalegar aðfarir við handtökuna hafa vakið hörð viðbrögð.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra var mælst til þess við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu að maðurinn yrði leystur undan vinnuskyldu á meðan málið er skoðað. Lögreglustjórinn varð við því.

Málið komst upp þegar myndband af handtökunni var sett á Facebook í gærkvöld. Þar sést lögreglumaður þrífa snöggt í handlegg konunnar og draga hana eftir götunni þannig að hún skellur á bekk. Tveir lögreglumenn til viðbótar koma þá út úr lögreglubílnum, konan er handjárnuð og færð inn í bílinn. Lögreglan ekur síðan á brott. Lögreglan hefur falið ríkissaksóknara að rannsaka málið.