
Leyfi veitt til sprenginga vegna Fast 8
Fjölmennt lið er á Mývatni við undirbúning fyrir atriði í hasarmyndinni Fast 8 sem tekin verða upp á ísnum á næstunni. Snjór hefur verið ruddur af ísilögðu vatninu og í gær þeystu bílar um ísinn. Öryggisgæsla er á tökustað og óviðkomandi ekki hleypt að.
Alls kyns farartæki hafa verið flutt að Mývatni undanfarið, hraðskreiðir sportbílar, fólksbílar og trukkar auk vélsleða, sem settir hafa verið á flutningabíla og keyrðir á tökustað.
Einn tökustaður er á snævilögðu Langavatni þar sem sprengjuhleðslur verða sprengdar. Til þess þurfti leyfi Fiskistofu og umsögn Veiðimálastofnunar. Í umsögninni segir að einhver fiskadauði geti orðið nærri sprengingunni en áhrifin séu tímabundin og staðbundin á litlu svæði.
Bæði bleikja og urriði eru í Langavatni en sprengingarnar eiga ekki að hafa alvarleg eða varanleg áhrif á fiskinn að mati Veiðimálastofnunar. Að auki telja sérfræðingar hennar ólíklegt að fiskum ofan og neðan vatnsins stafi hætta af sprengingunum.