Daði bjó lengi í Danmörku en flutti svo til Íslands og fór í framhaldsskóla á Selfossi. Þar var hann meðal annars í körfuboltakademíunni í tvö ár en hafði engan brjálaðan áhuga á körfubolta þrátt fyrir að vera hávaxinn. Fljótlega fór tónlistin þó að toga í hann og fyrsta hljómsveitin, Finnski herinn, ekki lengi að verða til. Seinna átti hann svo eftir að stofna hljómsveitina RetRoBot sem sigraði í Músíktilraunum árið 2012.
Daði segir ákvörðunina um að taka þátt í undankeppni Eurovision hér heima hafa verið grín. „Það kom mér á óvart hvað það var lítið af fólki sem var ekki að fíla þetta [lagið] því þetta var alveg lúðalegt.“ Hann segir það hins vegar hafa verið létti þegar þau heyrðu að Svala færi áfram af því hann hefði annars þurft að setja tónlistarnámið, sem hann var í á þessum tíma, á pásu og klára það síðar.
Nú býr Daði í Berlín ásamt konunni sinni Árnýju og dóttur þeirra sem fæddist fyrr á árinu. Hann segir það næs að búa í Berlín og þar sé fólki líka frekar sama um það hversu hávaxinn hann er. Þá sé honum sama þó hann spili fyrir aðeins færra fólk á tónleikum þar en á Íslandi.
„Mig langar að gera músík þangað til ég er dauður, hvort sem það eru milljón manns að hlusta eða bara einn, þá er mér eiginlega alveg sama.“
Daði Freyr er viðmælandi Atla Más Steinarssonar í þriðja þætti annarrar seríu Rabbabara. Þetta er þriðji þáttur af sex en í næstu þáttum fáum við meðal annars að kynnast Herra Hnetusmjöri og GDRN. Þáttinn má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.