Lét HÍ borga fyrir mat á fínum stöðum

21.11.2013 - 15:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrrverandi fjármálastjóri Háskóla Íslands hefur verið ákærður fyrir fjárdrátt og fjársvik í opinberu starfi en hann er grunaður um að hafa dregið sér rúmar níu milljónir króna. Í ákærunni er hann meðal annars sagður hafa notað kreditkort skólans á mörgum af dýrustu veitingastöðum Reykjavíkur.

Upp komst um málið við innra eftirlit í skólanum í fyrra. Þá vöknuðu spurningar um háttsemi hans og var óskað eftir rannsókn frá Ríkisendurskoðun. Hún leiddi til þess að rektor kærði málið til lögreglunnar. Manninnum var í framhaldinu sagt upp störfum en brot hans eru í ákærunni sögð hafa staðið yfir frá árinu 2007 til 2011.

Í ákærunni er hann meðal annars sagður hafa misnotað aðstöðu sína til að skuldbinda HÍ til að greiða fyrir vörur og þjónustu í eigin þágu. Í ákærunni eru síðan taldar upp 160 færslur af kreditkorti skólans. Þar má sjá nöfn margra af fínustu veitingastöðum borgarinnar - Dill, Perlan, Vox, Humarhúsið og Fiskmarkaðurinn auk nokkurra úttekta hjá Vínbúðinni og tvær færslur hjá hóteli í Las Vegas. Upphæðin í þessum lið nemur tæpum 1,4 milljónum króna.

Fjármálastjórinn fyrrverandi er einnig ákærður fyrir að láta Háskóla Íslands í tvígang greiða tilhæfulausan reikning sem  einkahlutafélag í hans eigu gaf út. Í ákærunni kemur fram að um leið og maðurinn samþykkt reikningana voru fjármunirnirnir millifærðir af reikningi skólans og inn á bankareikning einkahlutafélagsins.  

Í ákæru saksóknara er maðurinn einnig sagður hafa látið Háskóla Íslands greiða sér tvisvar sinnum fyrir útlagðan kostnað, annars vegar vegna fyrirlestrar og hins vegar vegna ráðgjafarvinnu. Í ákærunni eru þessir tveir reikningar sagðir ekkert með HÍ að gera.  Þar segir enn fremur að maðurinn hafi þurft að fylla út sérstakt eyðublað og samþykkja það sjálfur. Í báðum tilvikum voru upphæðirnar millifærðir inn á persónulegan bankareikning mannsins.

Maðurinn er síðan ákærður fyrir að hafa látið Háskóla Íslands fjórum sinnum borga fyrir erlenda þjónustu sem var HÍ óviðkomandi.  Þrír af þessum reikningum voru gefnir út af fyrirtækinu Gestion De Capitaux Inc. og einn af Assetpoint Group. Upphæðirnar - rúmar 4,6 milljónir íslenskra króna í dollurum - voru millifærðar á reikninga þessara fyrirtækja í Bandaríkjunum.

[email protected]

 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi