Lestarsamgöngur í lamasessi vegna mótmæla

27.02.2020 - 04:39
Members of the Mohawk community stand near the entrance to the blockade of the commuter rail line on Wednesday, Feb. 26, 2020, in Kahnawake, Quebec. (Ryan Remiorz/The Canadian Press via AP)
 Mynd: AP
Ekkert lát er á mótmælum í Kanada vegna fyrirhugaðrar lagningar náttúrugasleiðslu í vestanverðu landinu. Lögregla fjarlægði tálma á járnbrautarteinum austur af Toronto á mánudag, en mótmælendur voru aftur komnir á staðinn í gær. Þeir hafa kveikt elda á teinunum og hent grjóti í lestir sem aka framhjá. 

Fjölmargir hópar frumbyggja og annarra Kanadamanna taka undir mótmæli Wet'suwet'en þjóðarinnar sem hafnar því að fá gasleiðsluna í gegnum landsvæði sitt. Mótmælin hafa dreifst víða um landið, og beinast þau helst að lestarsamgöngum. Miklar tafir og truflanir hafa orðið á þeim síðan. Til að mynda hefur teinum nærri Belleville í Ontario verið haldið lokuðum af mótmælendum í 18 daga. 

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segist hafa miklar áhyggjur af ástandinu. Hann segir það óþægilega tilhugsun að fólk sé tilbúið að hætta lífi sínu og annarra með því að reyna að trufla lestarsamgöngur. Stjórn hans sé að reyna að ná tökum á ástandinu, og mótmælunum verði að linna. 

Mótmælin hafa orðið að allsherjar baráttu fyrir réttindum frumbyggja í landinu. Þeir vilja að raddir þeirra heyrist, og tekið sé mark á kröfum þeirra. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV