Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Lest gæti orðið að veruleika eftir 9 ár

07.07.2014 - 22:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Hraðlest milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og BSÍ gæti orðið að veruleika eftir níu ár. Um helmingur flugfarþega í millilandaflugi á leið til og frá landinu myndi nýta sér lestina og ferðatími yrði um fimmtán til nítján mínútur.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar nokkrar skýrslur um lestarferðir milli Keflavíkur og Reykjavíkur þar sem lestarsamgöngur hafa verið slegnar út af borðinu.

Í dag - á BSÍ - var hins vegar kynnt ný skýrsla um hraðlest milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Umferðarmiðstöðvarinnar þar sem slík lest er metin hagkvæm. Lestarleiðin yrði 47 kílómetrar, meðalhraði lestarinnar er um 180 kílómetrar á klukkustund og áætlanir gera ráð fyrir að leiðin liggi sunnan Reykjanesbrautar. Lestin kemur frá Keflavíkurflugvelli, landleiðina meðfram Reykjanesbrautinni og fer niður í tólf kílómetra löng göng og síðan er endastöð hugsuð við BSÍ.

Ferðatími er sagður um 15 til 19 mínútur og hámarkshraði um 250 kílómetrar á klukkstund. Gert er ráð fyrir því í skýrslunni að um helmingur allra flugfarþega í millilandaflugi myndu nýta sér lestina.

Tekjur eru áætlaðar um tíu og hálfur milljarður fyrsta rekstarárið en framkvæmda- og stofnkostnaður er sagður vera um 102 milljarðar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að það sé vissulega nokkuð framtíðarleg sýn að hugsa sér lestastöð undir BSÍ. „Einhvern tímann þarf að byrja hugsa svona stórt, ég held að það sé rétt að vinna svona mál í breiðri samstöðu, auðvitað með öllum fyrirvörum. Þetta eru stórar tölur, þetta eru metnaðarfull áform. en ég hef trú á því að við fáum fólk til að vinna áfram að þessu með okkur og sjáum hvort það komi ekki eitthvað spennandi og uppbyggilegt til framtíðar upp úr því.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, starfandi innanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir verkefnið vera spennandi. „Hvað varðar mig sem Keflvíking og Suðurnesjamann, þá kemur fram í skýrslunni að samfélagslegi ábatinn yrði kannski einna mestur þar og því er fróðlegt að sjá hvernig það verður skoðað í framhaldinu. Þetta er fyrsta skrefið en þetta er spennandi verkefni.“