
Lesskilningi íslenskra nemenda hrakar enn
PISA er alþjóðleg langtímarannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði og stærðfræði. Alls taka tæplega 80 þjóðir þátt í rannsókninni, þar af 34 aðildarríki OECD. PISA-rannsóknin er framkvæmd á þriggja ára fresti í öllum ríkjum OECD og nær til um 600 þúsund nemenda. Í ár var lögð sérstök áhersla á lesskilning.
Þriðjungur drengja ná ekki grunnhæfni í lesskilningi
Lesskilningi íslenskra nemenda hefur hrakað marktækt í samanburði við árið 2009 þegar hann var síðast aðalsvið könnunarinnar. Frammistaða íslenskra nemenda er mun lakari en á öðrum Norðurlöndum og hefur dalað frá 2000 þegar Ísland tók fyrst þátt. Þá er hann áfram nokkuð undir meðaltalinu í löndum OECD.
Þeim nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings hefur fjölgað en rúmlega þriðjungur íslenskra drengja hefur ekki grunnhæfni í lesskilningi. Í heildina eru þeir sem ekki ná viðmiðum 26%. Hlutfall drengja hefur hækkað marktækt um fimm prósentustig frá 2015 og samtals um rúmlega tíu prósentustig frá 2009, þegar síðast var lögð áhersla á lesskilning í PISA. Lesskilningur stúlkna er almennt betri en drengja. Um sjö prósent íslenskra nemenda hafa afburða lesskilning en meðaltal annarra ríkja er í kringum níu prósent.
Íslenskir nemendur standa áfram verr að vígi en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndunum og í öðrum ríkjum OECD þegar kemur að læsi á náttúruvísindi en staðan helst óbreytt frá 2015. Færni í stærðfræði er aftur á móti rétt yfir meðaltali og hefur aukist frá síðustu könnun PISA.
Ástæða til að endurmeta stöðuna
Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir í leiðara við íslensku Pisa-könnunina að ýmislegt bendi til þess að sérstaða Íslands sem lítils málsamfélags hafi í för með sér sérstakar áskoranir gagnvart áhrifum alþjóðlegs efnis á ensku. „Hins vegar eru líka í íslensku samfélagi styrkleikar sem koma m.a. fram í jöfnuði og stuðningi við fjölbreyttan hóp nemenda. Niðurstöður PISA gefa tilefni til að gefa verulega í þegar kemur að stuðningi við kennara og skóla, huga að jafnrétti vegna búsetu og auka væntingar okkar um frammistöðu nemenda, “ segir Arnór.
Hann segir jafnframt að í engu megi slaka á í þeim aðgerðum sem nú standi yfir til að efla læsi og auka vitund í samfélaginu um mikilvægi þess. Full ástæða sé til að nýta niðurstöður nú til að endurmeta stöðuna og skoða á gagnrýninn hátt hvað þurfi meira til svo Ísland standi jafnfætis þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.