Les um Gísla á Uppsölum á Suðurpólnum

Mynd með færslu
 Mynd:

Les um Gísla á Uppsölum á Suðurpólnum

30.12.2012 - 14:40
Rúm vika er til ferðaloka hjá Vilborgu Örnu Gissurardóttur sem ferðast á gönguskíðum á Suðurpólinn. Að meðaltali ferðast hún um 22 kílómetra á dag og fer hraðar yfir eftir því sem gengur á birgðirnar. Hún er ein á ferð og safnar áheitum til styrktar LÍF, styrktarfélagi Kvennadeildar Landspítalans.

Dagur 42 af 50

Fertugasti og annar dagur leiðangurs Vilborgar er runninn upp á Suðurpólnum. Í upphafi gerði hún ráð fyrir að ferðin tæki fimmtíu daga og er útlit fyrir að sú áætlun haldist. Hún er stödd í 2050 metra hæð og á eftir rúma 700 metra í hæsta punkt pólsins. Vilborg undirbjó sig mjög vel fyrir ferðalagið og þakkar hún undirbúningnum að fátt óvænt hafi komið uppá.

Einveran breytir hugsunarhætti manns

Aðspurð hvort einhveran á pólnum breyti ekki lífsviðhorfum manns segir hún svo sannarlega vera. „Að vera einn, og að vera einn í svona aðstæðum það náttúrulega þýðir að maður þarf að vera sjálfum sér nógur og maður þarf að geta tekist á við allar aðstæður einn og það þýðir ekkert að segja: Ég nenni ekki eða ég get ekki. Þannig að ég hef þurft að ganga í öll verk, sama hvernig manni
líður. Að öðru leyti hvernig maður hugsar, ég held að það komi oft í ljós þegar maður kemur heim og melta þessa reynslu," sagði Vilborg sem segist sakna fjölskyldu sinnar mest í fjarverunni.  En hvað efnisleg gæði snertir segist hún kunna vel við fábrotið líf og einfaldan lífsstíl.

Verður gott að komast í sturtu

Samt sem áður neitar hún því ekki að tilhugsunin um sturtuna sé góð. „Jú, auðvitað verður rosalega gott að komast í sturtu og
geta þvegið sér og svona en það að geta ekki þvegið sér eða svona almenn þægindi eru bara hreinlega ekki partur af svona leiðangri og maður veit það þegar maður leggur af stað og það bara er þannig," sagði Vilborg.  

Einbúinn Gísli á Uppsölum

Aðspurð hvort hún hafi tekið lesefni með sér á Suðurpólinn segist hún hafa tvær bækur meðferðis. Önnur er skyndihjálparbók en hin fjallar
um mann sem naut einverunnar á sérstakan hátt.

„Hin bókin er um Gísla á Uppsölum. Þannig að Gísli fær líka að fara á Suðurpólinn," sagði pólfarinn Vilborg Arna Gissurardóttir.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Vilborg búin að ganga 700 kílómetra

Fólk í fréttum

Vilborg nálgast annan Suðurpólfara

Fólk í fréttum

Vilborg Arna búin að ganga þriðjung ferðar

Mannlíf

Ferð Vilborgar gengur vel