Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leonard fer til Clippers, sem fær líka George

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - EPA/AP Images

Leonard fer til Clippers, sem fær líka George

06.07.2019 - 08:04
Það var ekki bara titringur í jarðskorpunni í Kaliforníu í nótt, heldur líka í íþróttaheiminum: Kawhi Leonard, sem leiddi Toronto Raptors til sigurs í NBA-deildinni í körfubolta í sumar og var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar, hefur ákveðið að ganga til liðs við Los Angeles Clippers. Þangað fer einnig stjörnuleikmaðurinn Paul George frá Oklahoma City Thunder. Frá þessu greinir fréttamaðurinn Adrian Wojnarowski hjá ESPN, sem jafnan er fyrstur með fréttirnar af leikmannaskiptum í NBA.

Allir sem fylgjast með NBA-deildinni, sem og leikmenn og stjórnendur liðanna sjálfra, hafa beðið með öndina í hálsinum eftir að Leonard ákveði sig. Hann gerði bara árs samning við Toronto fyrir síðustu leiktíð og var því laus allra mála í sumar. Talið var víst að valið stæði á milli þess að semja á ný við Toronto, fara til Clippers eða mynda ógnvænlegt þríeyki með LeBron James og Anthony Davis hjá Los Angeles Lakers.

Wojnarowski segir að Clippers hafi orðið lendingin eftir að Leonard tókst að sannfæra George um að biðja um skipti og koma með með sér. Clippers lætur Oklahoma fá leikmenn og fjölda valrétta í nýliðavalinu næstu ár í skiptum fyrir George.

Leonard var langbesti leikmaður úrslitakeppninnar í ár, skoraði yfir 30 stig að meðaltali í leik og tók níu fráköst. Á sínu fyrsta og eina ári með Toronto tryggði hann liðinu fyrsta meistaratitil þess og það á móti Golden State Warriors, sem hefur verið illviðráðanlegt ofurlið undanfarin ár. Hann hefur áður unnið titil, með San Antonio Spurs 2014 gegn LeBron James og félögum í ofurliði Miami Heat, og þá var hann einnig valinn besti leikmaður lokaúrslitanna. Auk þess hefur hann tvisvar verið valinn besti varnarmaður deildarinnar og þrisvar í stjörnuleikinn.

Paul George er líka með bestu alhliða leikmönnum deildarinnar og átti magnaða leiktíð með Oklahoma. Hann var þriðji í valinu á leikmanni ársins og jafnframt þriðji í kjörinu um varnarmann ársins.

Hinir vonbiðlar Leonards, Los Angeles Lakers og Toronto Raptors, hafa haldið að sér höndum á leikmannamarkaðnum síðustu vikur til að hafa pláss undir launaþakinu ef ske kynni að þeir yrðu fyrir valinu hjá stórstjörnunni. Á meðan hafa liðin tvö horft á eftir hverjum minni og miðlungsstórum spámanninum á fætur öðrum í fang annarra liða deildarinnar. Nú bíður þeirra það verkefni að fylla liðin með þeim bitum sem eftir eru, fyrst sá stóri rann þeim úr greipum.

Tengdar fréttir

Körfubolti

Raptors sigruðu Golden State

Körfubolti

Leonard leiðir Toronto í kjörstöðu

Körfubolti

Flautukarfa Leonard kom Toronto í undanúrslit