Lengstu viðræður í þrjátíu ár

25.06.2019 - 19:37
Mynd: DR / DR
Nú í kvöld héldu stjórnarmyndunarviðræður áfram í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn þar sem vinstriflokkar reyna að mynda nýja ríkisstjórn undir stjórn Mette Frederiksen. Þetta eru lengstu stjórnarmyndunarviðræður í Danmörku í þrjátíu ár.

„Þið hafið kosið að Danmörk fái nýja ríkisstjórn.“

Þetta sagði Mette Frederiksen, formaður Jafnaðarmanna, á kosninganótt þegar ljóst var að vinstriblokkin náði fleiri þingsætum en sú hægri.

Daginn eftir fór fráfrandi forsætisráðherra, Lars Løkke Rasmussen, á fund drottningar og baðst lausnar fyrir ríkisstjórn sína. Þá fékk Frederiksen umboð til stjórnarmyndunar, en virtist strax meðvituð um að það gæti tekið sinn tíma, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

Þar reyndist hún sannspá því í dag er tuttugasti dagur stjórnarmyndunarviðræðna í Danmörku.

Það þarf að fara rúm þrjátíu ár aftur í tímann til að rifja upp lengri viðræður um myndun stjórnar í landinu, en árið 1988 tóku þær 25 daga. 

Frederiksen hitti formenn allra flokka í stærðarröð strax eftir kosningar og byrjaði því á fundi með sínum helsta andstæðingi í kosningabaráttunni, Rasmussen.

Undanfarið eru það fulltrúar rauðu blokkarinnar, flokkanna sem teljast til vinstri, sem sitja með Frederiksen bak við luktar dyr og reyna að mynda ríkisstjórn undir vökulum augum fjölmiðla. 

Í gær stóðu fundarhöld í rúmar tíu klukkustundir og um sautján blaðsíðna stjórnarsáttmáli ku vera langt kominn. 

Ekki þó alveg í höfn, velferðarmál og loftslagsmál eru meðal þess sem þarf að ná samstöðu um og fyrirhugaðir samstarfsflokkar vilja tryggja vilja sinna kjósenda, ætli þeir að veita Mette Frederiksen forsætisráðherrastólinn.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi