Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lengja dýpkunartímabil í Landeyjahöfn með nýrri aðferð

04.02.2020 - 14:24
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Vegagerðin hefur samið við danska dýpkunarfyrirtækið Rohde Nielsen A/S um dýpkun í Landeyjahöfn í febrúar og mars. Með því er verið að lengja dýpkunartímabilið, en fyrirtækið Björgun ehf. er með samning um að sinna dýpkun í höfninni að vori og hausti til 2021 samkvæmt útboði.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að danska fyrirtækið noti dýpkunarskipið Trud R í Landeyjahöfn og er það tilraunaverkefni þar sem öðruvísi aðferðum verður beitt en áður. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við fréttastofu að skipið dæli sandi beint út í strauminn í stað þess að dæla sandinum um borð, sigla með hann út og sleppa í sjó. Þessi aðferð hefur ekki verið prófuð áður í Landeyjahöfn.

Staða dýpis í Landeyjahöfn hefur verið óvenjugóð miðað við árstíma og reynslu síðustu ára. Bæði er minni sandur í höfninni og hagstæðara sjólag sem hefur gert nýja Herjólfi kleift að sigla oftar í Landeyjahöfn. G. Pétur segir að eldra skipið, Herjólfur III, hefði ekki getað siglt jafn oft í Landeyjahöfn og sá nýi, þrátt fyrir hagstæðari aðstæður.

Samningurinn við Rohde Nielsen A/S gildir frá 15. febrúar og út marsmánuð þegar Björgun ehf. tekur við á ný.