Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lenda á vanskilaskrá bara vegna smálána

07.05.2019 - 08:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Neytendasamtakanna segir það ótækt að Credit Info kanni ekki lögmæti krafna áður en það setur fólk á vanskilaskrá. Dæmi eru um að fólk lendi á vanskilaskrá eingöngu vegna smálána. Fólk losni ekki af vanskilaskrá nema það greiði smálánaskuldina og viðurkenni þar með ólögleg lán.

Fram kom í fréttaskýringaþættinum Kveik í síðustu viku að hátt í þriðjungur þeirra sem leita til umboðsmanns skuldara er með skuldir vegna smálána. Umboðsmaður sagði í þættinum að efnalítið ungt fólk sem ekki nái endum saman taki oft smálán til að brúa bilið og sé þannig fast í vítahring.

Smálánafyrirtækin skipta við Sparisjóð strandamanna til að fá aðgang að greiðslumiðlunarkerfi bankanna. Sparisjóðsstjórinnn sagði í samtali við fréttastofu í gær að til skoðunar væri að loka á viðskiptin við smálánafyrirtækin.

Hákon Stefánsson,  hjá Creditinfo, sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í gær að auðveldasta leiðin til að stöðva smálánafyrirtækin væri fyrir lántaka að neita að greiða, þannig að málið endi fyrir dómstólum. Fjölmargir sem tekið hafa smálán hafa leitað til Neytendasamtakanna. 

„Okkur hjá samtökunum hafa borist nokkrar ábendingar um það að fólk sem hefur lent í vandræðum hjá smálánafyrirtækjunum fyrir að greiða ekki þessi ólöglegu lán, hefur lent á vanskilaskrá hjá Creditinfo,“ segir Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna.

Er það bara vegna smálánaskulda?

„Já, samkvæmt okkar upplýsingum er það bara vegna smálánaskulda, engra annarra skulda,“ segir Breki.

Breki segir að margir smálánaskuldarar hafi fengið þau svör frá Creditinfo að ekki vægi hægt að taka fólk af vanskilaskrá fyrr en það hafi greitt kröfurnar og þar með viðurkennt þessi ólöglegu lán. Breki furðar sig á því að fyrirtæki geti beðið Creditinfo um að setja fólk á vanskilaskrá og Creditinfo kanni ekki réttmæti þeirra krafna. Þó svo að fólk fái nokkurra daga andmælarétt nýtist það oft ekki þar sem þeir sem taki smálán séu oft ekki stakk búnir til að taka til varna. 

„Við höfum krafist þess að Creditinfo breyti verklagi sínu og leggi niður þessa öfugu sönnunarbyrði. Það er að segja að fyrirtæki verði þá að sanna það að kröfur þeirra séu réttmætar en ekki að einstaklingar verði að afsanna það að þær séu réttmætar,“ segir Breki.

Athugasemd:

Samkvæmt skriflegu svari Creditinfo við fyrirspurn Fréttastofu RÚV, eru dæmi þess að smálánaskuldarar hafi verið teknir út af vanskilaskrá þótt lán hafi ekki verið greitt upp, vegna þess að fólk hafi mótmælt því að krafan væri lögleg.

„Samkvæmt starfsleyfi Creditinfo er félaginu ekki heimilt að vinna upplýsingar um umdeildar skuldir, ef skuldari hefur sannanlega komið andmælum við skuld á framfæri við kröfuhafa og/eða umboðsmann kröfuhafa og greint honum frá ástæðu andmælanna. Þetta á þó ekki við ef krafan hefur verið staðfest með opinberri réttargjörð [s.s. árituðum stefnum og dómum], þá er vinnslan heimil þrátt fyrir andmæli. Í þeim tilvikum sem andmæli berast okkur á þennan hátt eru færslur á vanskilaskrá alltaf afskráðar eða fallið frá fyrirhugaðri skráningu,“ segir í svari Creditinfo.