Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lektor segir að Tómas H. Heiðar hafi hótað sér

23.05.2016 - 20:50
Tómas H. Heiðar, forstöðumaður Hafréttarstofnunar Íslands, hvatti Bjarna Má Magnússon, lektor við Háskólann í Reykjavík, til að endurskoða erindi á alþjóðlegri ráðstefnu þar sem hann teldi það ganga gegn hagsmunum Íslands. Stjórn Hafréttarstofnunar segir samskiptin óheppileg og Tómas telur sig hafa gengið of langt.

Í mars fyrir rúmu ári sendi Bjarni Már Magnússon tölvupóst til Tómasar Heiðars, forstöðumanns Hafréttarstofnunar Íslands, meðal annars til að kanna hvort Hafréttarstofnun vildi styrkja ferð hans til Shanghai á alþjóðlega ráðstefnu um hafréttarmál. Í bréfi til Bjarna þann 17. mars segir Tómas. 

Láttu mig endilega vita sem allra fyrst hver niðurstaða þín er hvað fyrirlesturinn varðar. Ég tel ljóst að með fyrirhuguðum fyrirlestri myndurðu óhjákvæmilega brenna ýmsar brýr að baki þér.

Erindi Bjarna fjallaði um landgrunnsmál Kínverja og hvernig þeir gætu náð fram hagsmunum sínum í gegnum alþjóðlega dómstóla. 

Erindið beinist ekki að Íslandi en vissulega er hægt að nota þessa leið gagnvart Íslandi. En þá má spyrja aftur á móti, hvers vegna ætti Íslands að hræðast að vera dregið fyrir alþjóðlegan dómstól ef það telur að sín mál séu í góðu samræmi við alþjóðalög.

í framhaldinu segir Tómas:

Sem fræðimanni er þér í sjálfu sér frjálst að haga málflutningi þínum eins og þér sýnist. Þú hlýtur hins vegar að gera þér grein fyrir því að íslensk stjórnvöld og stofnanir á þeirra vegum eru ekki líkleg til að vilja bjóða þér til þátttöku í ráðstefnum um hafréttarmál, t.d. á vettvangi S.þ. í New York eins og gert hafði verið ráð fyrir, ef þú vinnur gegn mikilvægum íslenskum hagsmunum á þessu sviði

Tómas hefur sent Bjarna afsökunarbeiðni vegna málsins í kjölfar kvörtunar hins síðarnefnda til utanríkisráðuneytisins og Háskóla Íslands. Stjórn Hafréttarstofnunar telur að samskiptin hafi verið óheppileg. Það sé á verksviði stjórnar að taka ákvörðun um styrkveitingar en ekki forstöðumanns. Tómas segir í afsökunarbeiðninni að hann hefði átt að synja erindinu þar sem það gengi gegn hagsmunum Íslands. Þetta virðist þó ekki í samræmi við stefnu stjórnarinnar því í svari hennar segir:

Stjórn stofnunarinnar hefur aldrei sett það sem skilyrði fyrir styrkveitingum til fræðimanna að sérstakri stefnu í hafréttarmálum yrði fylgt eða lagt slík sjónarmið til grundvallar ákvörðunum sínum, en metur hverja umsókn um styrk sjálfstætt út frá gildi hennar fyrir rannsóknir á sviði hafréttar.

Rektor Háskólans í Reykjavík segir að því miður gerist það öðru hvoru að fræðimönnum sé hótað eða reynt að þvinga þá til að breyta málflutningi sínum. Það sé mjög alvarlegt enda akademískt frelsi undirstaða allrar starfsemi háskóla.

Ég held í flestum tilfellum sé alveg meðvitað að það sé verið að beita þrýstingi þar sem undirliggjandi eru afleiðingar sem er verið að láta í veðri vaka að geti komið fram fyrir viðkomandi fræðimann. En ég held að það sé yfirleitt alltaf gert í góðum tilgangi. En góður tilgangur helgar ekki meðalið og það eru til mörg dæmi um það í mannkynssögunni þar sem að góður tilgangur hefur nú ekki alltaf leitt okkur á bestu brautirnar.

baldvinb's picture
Baldvin Þór Bergsson
dagskrárgerðarmaður