Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Lekinn úr ráðuneytinu: Saga málsins

04.05.2014 - 19:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Lekamálið svokallaða á sér langan aðdraganda og er rannsókn lögreglu á málinu hvergi nærri lokið. Eftir úrskurð hæstaréttar er ljóst að átta manns í innanríkisráðuneytinu vissu af tilurð minnisblaðsins um hælisleitandann Tony Omos.

Aðstoðarmaður ráðherra og ráðherra sjálfur hafa báðar sagt að þær viti ekki hver lak blaðinu til fjölmiðla. 

Á hádegi 19. nóvember í fyrra birti DV frétt um að mótmæli hafi verið skipulögð fyrir utan innanríkisráðuneytið vegna úrskurðar um að vísa hælisleitandanum Tony Omos úr landi. Fleiri fréttir tengdar málinu voru birtar.

Klukkan fimm sama dag var minnisblaðið um Omos gert og vistað á opið drif innanríkisráðuneytisins, eins og rannsókn lögreglu leiddi í ljós og greint er frá í úrskurði héraðsdóms. Sautján mínútum síðar sendi skrifstofustjóri ráðuneytisins blaðið til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, aðstoðarmenn hennar, þau Gísla Frey Valdórsson og Þóreyju Vilhjálmsdóttir, og Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra.

Lögfræðingur úr ráðuneytinu tók minnisblaðið saman að beiðni skrifstofustjóra og tveir aðrir lögfræðingar lásu það yfir. Í Fréttablaðinu daginn eftir var birt frétt á forsíðu um að ónafngreindur hælisleitandi væri grunaður um aðild að mansali. Fréttin er byggð á rökstuðningi innanríkisráðuneytisins um synjun á endurupptöku á úrskurði um að senda manninn úr landi, en hvergi kemur fram í fréttinni hvaðan sá rökstuðningur er fenginn. Klukkan 10:55 birtist frétt byggð á minnisblaðinu á mbl.is. og þar tekið fram að blaðamaður hefði minnisblaðið undir höndum.

Samtökin No Borders mótmæltu í hádeginu við innanríkisráðuneytið því sem kallað var sundrun á fjölskyldu hælisleitandans. Samtökin héldu því fram að hann ætti ófríska unnustu hér á landi. Síðar um daginn gagnrýndu lögmenn hælisleitandans og tveggja kvenna, sem nafngreindar voru í minnisblaðinu, að gögnunum hefði verið lekið til fjölmiðla. 

Tveimur dögum síðar sendi innanríkisráðuneytið frá sér yfirlýsingu þar sem segir að ekkert bendi til þess að minnisblaðið hafi verið afhent frá embættismönnum innanríkisráðuneytisins. 6. janúar er málið kært til lögreglu. 12. janúar kemur önnur yfirlýsing frá innanríkisráðuneytinu um að athugun ráðuneytisins og stjórnarráðsins staðfesti að trúnaðargögn vegna málsins hafi bara farið til þeirra sem eiga rétt á þeim. Ríkissaksóknari skoðar hvort minnisblaðinu hafi verið lekið og óskar eftir öllum skjölum tengdum málinu hjá ráðuneytinu. 

17. janúar segir Þórey Vilhjálmsdóttir, annar aðstoðarmanna innanríkisráðherra, í Morgunútvarpi Rásar 2 að með athugun ráðuneytisins sé búið að taka fyrir það að minnisblaðið hafi komið frá innanríkisráðuneytinu. Hún neitar að hafa lekið blaðinu í fjölmiðla. Tíu dögum síðar kölluðu þingmenn stjórnarandstöðunnar eftir óháðri rannsókn á lekamálinu. 7. febrúar sendir ríkissaksóknari kæruna í lögreglurannsókn.

Hanna Birna sagði þá að hún teldi ekki rétt að víkja sem innanríkisráðherra á meðan rannsókn lögreglu væri í gangi: „Niðurstaða þessara athugana er að ekkert í gögnum ráðuneytisins bendir til þess að trúnaðargögn hafi verið send til aðila sem ekki eiga rétt á þeim lögum samkvæmt".

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnar kröfu lögreglunnar að gera fréttastjóra mbl.is að upplýsa hver lak minnisblaðinu til miðilsins 7. apríl. Hæstiréttur staðfestir svo úrskurð héraðsdóms þann fyrsta maí. Ekki er þó útilokað að lögregla láti aftur reyna á málið fyrir héraði. Rannsókn lögreglu er ekki lokið.