Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Leki með þakgluggum stuttu eftir viðgerðir

24.01.2020 - 16:40
Fossvogsdalur, útivistarsvæði, útivist, göngustígar, leiktæki, hjólastígar. Leiksvæði.
 Mynd: Reykjavíkurborg - Aðsend mynd
Reynt hefur verið að komast fyrir leka í Fossvogsskóla í Reykjavík síðan í desember en viðgerðir hafa ekki tekist að fullu. Skólanum var lokað í mars út skólaárið vegna raka og myglu og var ráðist í ýmsar framkvæmdir sem lauk síðla hausts. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að farið verði yfir það með fagaðilum hverju hafi verið ábótavant við verkið.

Lekinn nú kom upp í Vesturlandsbyggingu skólans og hefur lekið með þakgluggum sem endurnýjaðir voru í haust. Hann hefur valdið sjáanlegum skemmdum á innra byrði þaksins, að því er segir í tilkynningunni. Slæmt tíðarfar undanfarinna vikna hefur gert viðgerðarmönnum erfitt fyrir.

„Reykjavíkurborg mun ganga hratt og vel til verks um leið og færi gefst til að koma í veg fyrir lekann og lagfæra skemmdir sem hafa orðið vegna hans,“ segir í tilkynningunni.  

Miklar endurbætur voru gerðar á Fossvogsskóla í haust vegna rakaskemmda og segir í tilkynningunni að því miður hafi ekki tekist betur til og að farið verði yfir það með fagaðilum hverju hafi verið ábótavant við verkið.