Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Leitum af okkur allan grun“ - Myndskeið

17.01.2017 - 06:10
Mynd: RÚV / RÚV
Umfangsmikil leit lögreglu og björgunarsveita að Birnu Brjánsdóttur hefur staðið yfir í alla nótt í og við Hafnarfjarðarhöfn. Ágúst Svansson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að ákveðið hafi verið að hefja leit þegar skópar, líkt og það sem Birna klæddist þegar hún hvarf, fannst við höfnina í gærkvöldi. Næsta skref sé að sannreyna hvort skórnir eru skór Birnu. Á meðan það skýrist þurfi að leita af sér allan grun.

Jóhann Bjarni Kolbeinsson fréttamaður náði tali af Ágústi á vettvangi í Hafnarfjarðarhöfn um þrjúleytið í nótt. Sjá má viðtalið í spilaranum hér að ofan. Ágúst staðfestir að sjálfboðaliðar við leit hafi gengið fram á skóna. „Aðilar fundu skópar sem eru hugsanlega frá Birnu; við vitum það þó ekki. Þegar við finnum þessa skó setjum við af stað stóra leit til að finna út og í raun og veru að tryggja, er hún hér eða er hún ekki hér?“

Skórnir séu af tegundinni Dr. Martens líkt og þeir sem Birna klæddist þegar hún hvarf. „Tæknideildin kom hingað og tók skóna. Svo þarf að sannreyna hvort þeir séu skórnir hennar en þangað til erum við að vinna okkur tíma. Það er eins og við finnum hér, það er leiðindaveður, þannig að við ætlum að leita af okkur allan grun. Þess vegna boðum við björgunarsveitir. Við erum hér með björgunarsveitarhund, við erum með tvo dróna og svo lögreglumenn hér.“

Þessir drónar, eru hitamyndavélar í þeim? 
„Já það eru hitamyndavélar í þeim.“ 

Kafarar bíða átekta

Aðspurður segir Ágúst að kafarar séu ekki komnir á svæðið. „Við bíðum átekta með það en það eru bátar hérna fyrir utan nálægt ströndinni.“

Hverjir voru það sem fundu þessa skó
„Það eru tveir bræður sem fundu þessa skó. Það er búið að ræða betur við þá. Þeir eru búnir að vera, eins og annað fólk undanfarna daga, að hjálpa til við leitina og rákust á þetta og við þökkum bara vel fyrir það,“ segir Ágúst.

Það virtist af myndum að dæma að það væri snjór undir skónum. Nú hvarf Birna aðfaranótt laugardags, þá var enginn snjór. Er þetta eitthvað sem þið eruð að skoða?
„Já,já, við skoðum allar vísbendingar en þurfum bara að sannreyna, eru þetta hennar skór eða ekki? Þangað til verðum við að vera með full power á þessu svæði þangað til við getum raunverulega sagt af eða á.“

Mikið um misvísandi upplýsingar

Í gærkvöldi bárust tíðindi af samfélagsmiðlum að skór Birnu hefði fundist nærri Hafnarfirði. Ólíkar sögur fóru af því hvar hann hefði fundist. Fyrstu fregnir hermdu að hann hefði fundist nærri Kaldárseli en síðar kom í ljós að fundarstaðurinn var nálægt birgðastöð Atlantsolíu við Óseyrarbraut í Hafnarfirði. Á þriðja tímanum í nótt staðfesti Guðbrandur Örn Arnarson, aðgerðarstjóri Landsbjargar á vettvangi, að skórinn hefði ekki verið einn heldur hefði fundist skópar.

Mynd með færslu
 Mynd: Google Maps
Á kortinu fyrir ofan má sjá hvar skóparið fannst.
Mynd með færslu
 Mynd: Google Maps
Á kortinu fyrir ofan má sjá hvar skóparið fannst.

Aðspurður segir Ágúst að um misskilning hafi verið að ræða. Það hafi engin leitaraðgerð verið í Kaldárseli fyrr um kvöldið. „Hér er hið raunverulega svæði sem við erum að leita á núna.“

Hvað áttu von á að þið verðið lengi hér frameftir?
„Þangað til við finnum eitthvað. Ætli við verðum ekki fram í birtingu. Við tökum stöðufund á eftir og sjáum hvað verður úr þessu. Við erum að reyna að fá fleiri björgunarmenn á vettvang.“

Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.