Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Leitarsvæðið er mjög stórt

16.12.2013 - 09:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Austurlandi hefja leit að skipverjanum sem saknað er af erlendu flutningaskipi strax og birtir. Talið er að hann hafi fallið útbyrðis síðdegis í gær.

Landhelgisgæslunni barst í gærkvöldi aðstoðarbeiðni frá flutningaskipinu Alexiu sem var að koma inn til hafnar á Reyðarfirði. Nokkur loðnuskip hafa verið á svæðinu þar sem maðurinn er talinn hafa fallið í sjóinn, skipverjar á þeim voru beðnir að svipast um eftir manninum en sú eftirgrennslan bar ekki árangur.

Skúli Hjaltason er í svæðisstjórn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Austurlandi. „Við erum að setja á flot báta sem koma til með að leita þennan feril eftir skipið. Við erum með sjö báta, tvö björgunarskip og dráttarbátinn hérna á fjarðabyggð og svo harðbotna báta sem fara svolítið hraðar. Við ætlum að bíða eftir aðeins meira dagsljósi en um leið og birtir þá förum við af stað,“ segir Skúli. Hvenær er talið að maðurinn hafi fallið útbyrðis? „Það er á bilinu 15 til 18 í gær. Síðast sást hann við Seley, austur úr Reyðarfirðinum, svo er auðvitað ekki vitað nákvæmlega hvar þannig að þetta er svolítið stórt svæði.“