Leitaði lækningar en reyndist eikynhneigð

05.04.2018 - 16:34
Mynd: RÚV núll  / RÚV núll
Nýr þáttur af Hinseginleikanum er frumsýndur á vef RÚV í dag. Í þættinum er fjallað um eikynhneigð, en orðið er nýyrði hér á landi og er íslenskuð útgáfa af enska orðinu asexual.

Eikynhneigð er þegar einstaklingar laðast lítið eða ekkert að öðru fólki kynferðislega. Einnig er hægt að vera eirómantískur en þá upplifir einstaklingur ekki rómantískar tilfinningar gagnvart öðru fólki. 

Í þættinum er meðal annars rætt við Gyðu Bjarkadóttur sem lengi leitaði sér lækninga við tilfinningum sínum, en hún laðast ekki kynferðislega að öðru fólki. Hún upplifði mikla samfélagslega pressu um að vilja vera ástleitin öðrum en varð loks sátt þegar hún gerði sér grein fyrir því að tilfinningar hennar voru ekki sjúkdómur, heldur eikynhneigð. 

Gyða er formaður Ása á Íslandi, nýstofnaðs félags eikynhneigðra. 

Hinseginleikinn er sex þátta röð sem sýnd er á vef og samfélagsmiðlum RÚV. Þættirnir eru framleiddir af RÚV núll, nýrri þjónustu RÚV fyrir ungt fólk. Þátturinn um eikynhneigð er sá fimmti í röðinni. 

snaeros's picture
Snærós Sindradóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi