Leitað að týndum hjónum á Kili

13.07.2019 - 23:19
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Allar björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út á tíunda tímanum í kvöld til að leita hjóna sem týnd eru á Kili. Hjónin lögðu upp í göngu frá Gíslaskála um miðjan dag í dag ásamt tveimur öðrum. Þau urðu svo viðskila við ferðafélaga sína, sem skiluðu sér til baka í Gíslaskála um fimmleytið, segir í tilkynningu frá Landsbjörg. UPPFFÆRT kl. 00.25 Símasamband náðist aftur við hjónin og á tólfta tímanum höfðu þau séð grilla í ljós leitarfólks, sem vonast til að finna hjónin innan skamms.

Ferðafélagarnir fóru brátt að hafa áhyggjur af hjónunum og náðu sambandi við þau í síma. Þau reyndust rammvillt og síðast þegar í þau náðist, um áttaleytið, höfðu þau ekki hugmynd um hvar þau voru.

Ekki hefur náðst samband við þau síðan og lögðu fyrstu hópar björgunarfólks af stað á Kjöl klukkan hálftíu í kvöld, til að hefja leit út frá þeim upplýsingum sem fyrir liggja. Lágskýjað er á Kili og hiti undir tíu gráðum.

Öllum aðgerðum björgunarsveita er stýrt frá Selfossi, í samráði við aðra viðbragðsaðila. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi