Leita út fyrir Fellahverfið að skóla

02.08.2018 - 17:58
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg
Einungis 25 nemendur eru skráðir til náms í sex ára bekk í Fellaskóla í Breiðholti, nær helmingi færri en á árum áður. Af þeim börnum sem hefja munu nám í haust er yfirgnæfandi meirihluti af erlendum uppruna, en aðeins fimm þeirra tala íslensku að móðurmáli. Milli sjötíu og áttatíu prósent nemenda Fellaskóla koma frá heimilum með annað móðurmál en íslensku, og hefur það hlutfall hækkað jafnt og þétt síðustu ár.

Undanfarin ár hefur færst í aukana að íslenskumælandi foreldrar í Fellahverfi kjósi að senda börn sín í aðra grunnskóla en Fellaskóla. 66% barna með lögheimili í hverfinu gengu í Fellaskóla árið 2013, langt undir 96 prósenta meðaltali borgarinnar, og hefur það hlutfall lækkað enn frekar á síðustu fimm árum. Að sama skapi hefur það hækkað í nærliggjandi skólum, sér í lagi Seljaskóla og Hólabrekkuskóla, þar sem nú eru fleiri börn en eiga lögheimili á skólasvæðinu. Hlutfallið þar er nú langt yfir hundraði.

Mikilvægt að tryggja jöfnuð meðal grunnskóla

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir þessa þróun mikið áhyggjuefni og hún sé til athugunar hjá borginni. Mikilvægt sé að samfélagsbrot einangrist ekki innan borgarinnar og til standi að líta til reynslu annarra landa eftir lausnum á þessum vanda. Inn í það spili einnig atriði sem falli undir önnur svið borgarinnar, svo sem dreifing félagslegs húsnæðis og íbúða á viðráðanlegu verði fyrir láglaunafólk. 

„Þetta er eitt af stærstu og flóknustu verkefnum samfélagsins, hvernig eigi að tryggja jöfnuð, að tryggja að þessi menningarlega fjölbreytni sem við erum að sjá og upplifa, hvernig íslenskt samfélag hefur þróast, að jöfnuður sé sem víðast,“ segir Helgi. Hingað til hafi lítil meðvitund verið um misskiptingu milli grunnskóla, þar sem hverfisskólar hafi yfirleitt staðið nokkuð jafnt. Aðgerða sé nú krafist til koma í veg fyrir að breyting verði þar á, og meðal annars verði útdeilingu fjármagns breytt í vetur, þar sem horft verði til félagslegra breytna mismunandi skóla. 

Átaksverkefni skila árangri en skólar þurfa meiri stuðning

„Fellaskóli hefur staðið sig mjög vel og starfsfólkið þar hefur náð afburðagóðum árangri í vinnu með nemendahópinn sinn. En vitum að skólinn þarf meira, hann þarf að geta veitt kröftugri stuðning. Af einhverjum ástæðum og það er kannski erfitt að dæma til um það nákvæmlega, þá eru fleiri foreldrar þar, sem hafa íslensku að móðurmáli, sem velja að setja börn sín í annan skóla,“ segir Helgi. „Þetta er samtal sem við þurfum að taka með foreldrunum og samfélaginu í Fellahverfinu til þess að gera hverfið öflugra og að treysta skólastarf þar, bæði í leikskóla og grunnskóla.“ 

Skólastjóri Fellaskóla, Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, segir ýmis verkefni hafa verið sett á fót til að koma til móts við fjölbreyttar þarfir nemenda. Meðal annars sé nú boðið upp á lengri viðveru fyrir yngstu nemendurna, foreldrum þeirra að kostnaðarlausu. „Þetta er meðal annars hugsað til að til lengja þann tíma sem nemendur eru í íslensku málumhverfi,“ segir Sigurlaug. Þetta hafi þegar skilað árangri og nemendur Fellaskóla komist yfir borgarmeðaltal í lesskilningi. 
 

 

Emilía Sara Ólafsdóttir Kaaber
Fréttastofa RÚV