Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Leita þurfi jafnvægis milli öryggis og frelsis

22.03.2016 - 18:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Viðbúið er að ríki á Vesturlöndum auki eftirlit og öryggigæslu á næstunni til að reyna að komast að því hvort frekari hryðjuverkaárásir eru í undirbúningi, segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Hann segir að finna verði jafnvægi milli þess að tryggja öryggi og ganga ekki að ferðaréttindum og frelsi fólks.

„Ég hugsa að þjóðir heims, í það minnsta í Evrópu,reyni að auka eftirlit með einhverjum hætti, að minnsta kosti tímabundið, til að komast að því hvort það er von á fleiri hryðjuverkum,“ segir Gunnar Bragi. Í það minnsta sum ríkjanna reyni svo að komast að því hvort og þá hvað hafi farið úrskeiðist. Leitast verði til að tryggja öryggi en líka passa upp á að búa ekki til hópa öfgamanna. Hér falli það í hlut embættis ríkislögreglustjóra að meta viðbrögð við árásunum.

„Við megum líka passa okkur á að hlaupa ekki upp til handa og fóta og kenna einhverjum hópum um. Við verðum líka að spyrja okkur hvort við þurfum að sætta okkur við eitthvað aukið öryggi eða eftirlit til að komast hjá hjá sambærilegum atburðum. Allt er þetta fín lína eða jafnvægi sem þarf að finna,“ segir Gunnar Bragi.

Eftir hryðjuverkin í París var settur aukinn kraftur í loftárásir á ISIS í Sýrlandi. „Ég geri alveg ráð fyrir því að það verði rætt hvort það eigi að bæta í það með einhverjum hætti. Við munum aldrei koma alveg í veg fyrir hryðjuverk, þau hafa lengi fylgt okkur, en við verðum að gera til að reyna að minnka líkurnar á þeim. Hvort stríð sé rétta leiðin er ég ekki alveg viss um.“ Ráða þurfi niðurlögum þeirra hópa sem kenna sig við ISIS.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV