Leita að sérfræðingi sem getur aldursgreint tennur

12.03.2020 - 10:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Útlendingastofnun auglýsir eftir samstarfsaðila til að aldursgreina tennur þeirra sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi. Háskólaráð Háskóla Íslands tilkynnti í gær að samningur tannlæknadeildar og Útlendingastofnunar um tanngreiningar yrði ekki endurnýjaður vegna óánægju með fyrirkomulag aldursgreininga hér á landi.

Samningurinn rennur út 25. mars. Útlendingastofnun birti á vef sínum í gær tilkynningu þar sem auglýst er eftir nýjum samstarfsaðila til að gera aldursgreiningar á tönnum. Í tilkynningunni segir að verklag stofnunarinnar sé í fullu samræmi við ákvæði gildandi laga og reglugerðar um útlendinga. Við ákvörðun á aldri sé byggt á heildstæðu mati á aðstæðum einstaklings, frásögn hans, framlögðum gögnum og eftir atvikum aldursgreiningu á tönnum.

Háskólaráð Háskóla Íslands tilkynnti í gær að samningurinn yrði ekki endurnýjaður vegna fyrirkomulags aldursgreininga og að ráðið hafi gert  athugasemdir við fyrirkomulagið við undirritun samningsins sem nú er að renna út. Þá hafi meðal annars verið bent á að barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna leggi til að ríki forðist að nota klínískar aldursgreiningar á tönnum. 

Tanngreiningar á fólki sem sótt hefur um hæli á Íslandi hafa verið mjög umdeildar hér á landi og hafa t.d. Rauði krossinn og Stúdentaráð HÍ mótmælt þeim harðlega. Rauði krossinn hefur fagnað ákvörðun Háskólaráðs og það hefur Stúdentaráð gert líka. Í tilkynningu frá ráðinu segir að álit Stúdentaráðs hafi byggst á álitum og yfirlýsingum sem alþjóðlegar mannúðar- og vísindastofnanir hafa gefið út. Háskóli Íslands sé menntastofnun sem á ekki að sinna ósiðlegum og vísindalega ónákvæmum rannsóknum.  

 

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi