Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Leit út eins og gljáfægður hlandkoppur“

29.03.2017 - 19:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vilhjálmur Bjarnason þingmaður efast um að Ólafur Ólafsson hafi verið sá eini í S-hópnum sem hafi vitað af blekkingum um aðkomu þýska bankans að kaupunum á Búnaðarbankanum. Vilhjálmur sakar stjórnvöld á þessum tíma um sinnuleysi að hafa ekki áttað sig á því að þýski bankinn hefði burði til þess að kaupa hlutinn. „Það er sinnuleysi að horfa ekki í gegnum færslur þarna, heldur að horfa alltaf á yfirborðið sem leit út eins og gljáfægður hlandkoppur allan tímann,“ segir Vilhjálmur.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fjallaði um niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndarinnar á fundinum sínum í hádeginu. 

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur í rúman áratug lýst efasemdum um að þýski bankinn hafi í raun komið að kaupunum á Búnaðarbankanum. „Grunur minn reynist réttur. Þarna er góður ásetningur Kaupþings, þýska bankans og nokkurra einstaklinga. En ég hef hins vegar verulegar efasemdir um það að ákveðnir einstaklingar sem eru þarna nærri hafi ekki haft neinn grun. Ef þeir hafa ekki haft neinn grun þá eru þeir ekki hæfir til þess að taka þátt í þeim störfum sem þeim var ætlað á þeim tíma,“ segir Vilhjálmur. Áttu þá við stjórnvöld eða aðra í S-hópnum? „Ég á við stjórnvöld og í S-hópnum og eftirlitsaðila og fleiri,“ segir Vilhjálmur. Efastu um að aðrir í S-hópnum hafi ekki vitað af þessu?  „Já, ég efast um það,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur sakar stjórnvöld á þessum tíma um sinnuleysi. „Þetta er náttúrulega sinnuleysi og barnaskapur að halda það að þessi þýski banki hafi haft burði til þess að gera þetta. Það er sinnuleysi að horfa ekki í gegnum færslur þarna, heldur að horfa alltaf á yfirborðið sem leit út eins og gljáfægður hlandkoppur allan tímann,“ segir Vilhjálmur.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV