„Leikvelli Bandaríkjanna“ lokað í mánuð

18.03.2020 - 05:48
epa03666429 Night scene on the Las Vegas Strip showing Las Vegas Boulevard and a pedestrian overpass escalator in Las Vegas, Nevada, USA, 17 April 2013.  Las Vegas is the gaming capital of the world and a popular destination for getting married and for conventions.  EPA/MICHAEL NELSON
 Mynd: epa
Fjárhættuspila- og skemmtanaborgin Las Vegas verður ekki svipur hjá sjón næsta mánuðinn hið minnsta, þar sem ríkisstjóri Nevada boðaði í gær lokun allra fyrirtækja, verslana og skemmtistaða í ríkinu, sem ekki teljast veita nauðsynlega þjónustu. Lokunin tekur gildi á hádegi á miðvikudag að staðartíma og stendur í 30 daga hið minnsta.

Veitingastaðir geta haldið starfsemi sinni áfram að takmörkuðu leyti; leyfilegt verður að selja fólki mat til að taka með sér og þeim er lika heimilt að halda úti heimsendingaþjónustu. Öll spilavíti verða hins vegar lokuð og meira að segja spilakassar í kjörbúðum verða teknir úr umferð, þótt verslanirnar fái að halda áfram sölu nauðsynjavöru með ákveðnum skilyrðum.

Spilavítin í Vegas eru venjulega opin allan sólarhringinn og þau hafa ekki lokað dyrum sínum fyrir spilafíknum ferða- og heimamönnum síðan 1963. Þá var þeim gert að loka einn dag vegna útfarar Johns F. Kennedys, Bandaríkjaforseta.   
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi