Í grein Variety er aðeins farið yfir keppnina en hún er nánast óþekkt í Bandaríkjunum og rætt við John Lundvick sem keppir fyrir hönd Svía. Talið er að um 200 milljónir sjónvarpsáhorfenda fylgist með Eurovision ár hvert og í gærkvöld var fyrsta undanúrslitakvöldið þar sem íslenska framlagið, Hatrið mun sigra með Hatari, komst áfram.
Það er ekki fyrr en undir lok greinarinnar að það er nefnt að bandaríska leikkonan Rachel McAdams sé stödd í Tel Aviv. McAdams er ein vinsælasta leikkona Hollywood, hefur leikið í kvikmyndum eins og Notebook og var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í kvikmyndinni Spotligth.
Variety fullyrðir að McAdams sé að undirbúa sig fyrir hlutverk sitt í kvikmynd Will Ferrell, Eurovision, þar sem hún eigi að leika íslenska söngkonu. Og að tökur á myndinni eigi að hefjast í Pinewood-myndaverinu í Lundúnum í sumar. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem til Ísraels og ég vissi ekkert við hverju var að búast,“ segir McAdams í samtali við Variety. „Mér fannst ég verða að grípa þetta tækifæri.“
Eurovision-myndin er framleidd af Netflix en gamanleikarinn Will Ferrell skrifar handrit myndarinnar og leikur aðalhlutverkið. Hann hefur lengi verið aðdáandi Eurovision en hann kynntist henni í gegnum sænska eiginkonu sína. Nærvera Ferrell vakti athygli í Portúgal í fyrra og í ár voru skipuleggjendur keppninnar sagðir hafa beðið leikarann um að koma fram.