Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Leikskólar í Hafnarfirði verða opnir allt sumarið

13.02.2020 - 07:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fræðsluráð Hafnarfjarðar samþykkti í gær að afnema sumarlokanir í leikskólum bæjarins. Frá og með sumrinu 2021 verða leikskólarnir starfræktir allt sumarið.

Tæplega 80 prósent foreldra barna  vildu fá að velja hvenær barnið þeirra tæki sumarfrí, samkvæmt könnun sem var gerð í bænum. 

Foreldrar geta því valið um hvort börn þeirra taki frí í júní, júlí eða ágúst. Taka þarf fríið samfleytt í 4 vikur. Þannig aukast möguleikar á að foreldrar og börn séu í fríi á sama tíma. 

Í tilkynningu frá formanni og varaformanni fræðsluráðs á vef Hafnfirðings segir að fyrra fyrirkomulag hafi sett börn og foreldra í vanda yfir sumartímann og foreldrar þurft að leita annara leiða til að fá vistun fyrir börn sín þegar leikskólinn er lokaður og foreldrarnir ekki í sumarfríi á sama tíma. Með ákvörðuninni sé verið að taka stórt skref í átt að barnvænna samfélagi í Hafnarfirði.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV