Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leikmaður Svía varð fyrir kynþáttaníði

epa08000749 Sweden's Alexander Isak walks on the picth during the UEFA EURO 2020 group F qualifying soccer match between Romania and Sweden, at National Arena stadium in Bucharest, Romania, 15 November 2019. Main referee Orsato halted briefly the game due to an alleged racist chanting of the Romanian supporters against Alexander Isak of Sweden. The game continued after the incident, Sweden winning against Romania with 2-0.  EPA-EFE/ROBERT GHEMENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Leikmaður Svía varð fyrir kynþáttaníði

16.11.2019 - 09:30
Svíar tryggðu sér sæti á EM karla í fótbolta næsta sumar með 2-0 sigri á Rúmeníu í Búkarest í gær. Kynþáttaníð í garð Alexanders Isak, framherja Svía, setti þó svartan blett á leikinn.

Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið en ljóst var að Svíar myndi tryggja sér farseðilinn á EM með sigri en Rúmenar gátu aftur á móti farið upp fyrir þá sænsku í annað sæti riðilsins með sigri. Þeir sænsku komust 2-0 yfir með mörkum Marcusar Berg og Robins Quaison í fyrri hálfleik og héldu út í þeim síðari.

„Mjög dapurt“

Það fór illa í stuðningsmenn Rúmeníu sem ákváðu að taka það út á Alexandri Isak sem kom inn á sem varamaður á 77. mínútu. Í frétt sænska ríkisútvarpsins, SVT, kemur fram að golfkúlu hafi verið hent í átt að Isak en Daniele Orsato, ítalskur dómari leiksins, stöðvaði leikinn tímabundið um tveimur mínútum eftir að Isak kom inn á sem varamaður.

„Ég spurði dómarann hvort hann hefði heyrt eitthvað. Stuttu seinna stöðvaði hann leikinn og sagðist hafa heyrt eitthvað.“

„Hann spurði mig: „Á ég að stöðva leikinn?“. Ég sagði nei, þú þarft ekki að gera það. Rasísk orð, þetta á ekki að gerast. Þetta er mjög dapurt.“ sagði Isak við sænska fjölmiðla eftir leik.

„Auðvitað særir þetta, sem er synd en við erum undirbúnir fyrir þetta. Ég læt svona hluti ekki hafa áhrif á mig. Það er betra að hundsa þetta. Það verða alltaf svona fífl til staðar og það er betra að gefa þeim ekki athyglina sem þeir leita eftir. bætti Isak við.“

epa08000764 Sweden's Alexander Isak (L) passes by the main referee Daniele Orsato (R), from Italy, while recovering after a tackle during the UEFA EURO 2020 group F qualifying soccer match between Romania and Sweden, at National Arena stadium in Bucharest, Romania, 15 November 2019.  Main referee Orsato halted briefly the game due to an alleged racist chanting of the Romanian supporters against Alexander Isak of Sweden. The game continued after the incident, Sweden winning against Romania with 2-0.  EPA-EFE/ROBERT GHEMENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Isak ásamt Orsato dómara leiksins í gær.

Andreas Granqvist, fyrirliði sænska liðsins, var ánægður með viðbrögð Orsato. „Dómarinn brást rétt við. Hann sagði við Isak að láta sig vita ef þetta héldi áfram og þá myndi hann stöðva leikinn.“

Isak, sem er tvítugur framherji Real Sociedad á Spáni, er fæddur í Stokkhólmi en á foreldra frá Eritreu. Hann er talinn á meðal efnilegri leikmanna Svíþjóðar og hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið tíu landsleiki og skorað í þeim fjögur mörk.

Þriðja skiptið í sömu undankeppninni

Isak kláraði leikinn í Búkarest í gær og fagnaði með Svíum í leikslok er þeir tryggðu sér sæti á EM. Rúmenía á yfir höfði sér þriðju kæruna frá Evrópska knattspyrnusambandinu í einu og sömu undankeppninni vegna kynþáttahaturs stuðningsmanna.

Leikur liðsins við Noreg í október fór fram fyrir luktum dyrum vegna kynþáttaníðs stuðningsmanna en þeir rúmensku eiga nú á hættu að vera sviptir stigum í riðlinum.