Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Leikir sem fá mann til að hugsa

Mynd: Numinous / Numinous

Leikir sem fá mann til að hugsa

12.03.2020 - 15:07

Höfundar

Flestir tölvuleikir eru hannaðir með skemmtanagildi í huga. En til eru leikir sem ýta undir að spilarinn velti fyrir sér því málefni sem leikurinn tekur fyrir, til dæmis kvíða, alkóhólisma, fórnalömb stríðs, fíkn og einhverfu.

Bjarki Þór Jónsson skrifar:

Þú vaknar á grámyglulegum degi eftir lítinn svefn. Þú fórst of seint að sofa. Hékkst of lengi í símanum. Þú ert einmana og þér líður illa. Verður samt að fara á fætur og mæta í vinnuna. Reikningarnir borga sig nefnilega ekki sjálfir. Þú tekur þig til og gengur út úr blokkaríbúð þinni. Í lyftunni hittir þú nágranna þína. Þeir heilsa þér ekki heldur líta undan. Þeir vilja ekkert með þig hafa. Þú kíkir í póstkassann þinn á leiðinni út. Ekkert nema reikningar. Þú ert fljótur að loka póstkassanum aftur og vildir óska þess að þú hefðir ekki kíkt í hann. Þú gengur einn í vinnuna. Það rignir. Þú andar að þér mengandi útblæstri bílanna sem keyra fram hjá þér hver á eftir öðrum. Borgin er dimm og litlaus. Þegar þú mætir í vinnuna færðu samstundis viðvörun fyrir að vera nokkrum mínútum of seinn. Þú gætir misst vinnuna með þessu áframhaldi. Þér líður eins og þú sért að drukkna. Endalaust álag sem ekki sér fyrir endann á. Þú sérð ekki lengur tilgang með lífinu. Til hvers er ég að þessu? Spyrðu sjálfan þig. Fyrir hvern er ég að lifa? „Haltu áfram!“ er kallað í átt að þér. Þú lítur aftur á tölvuskjáinn og reynir að einbeita þér að starfinu. Að vinnudegi loknum gengur þú heim og leggst upp í rúm. Ákveður að kíkja aðeins á símann fyrir svefninn og gleymir þér í honum, eins og svo oft áður. Þér líður eins og þú hafir rétt svo blikkað augunum þegar þú vaknar við vekjaraklukkuna. Enn annar grámyglulegur dagur tekur á móti þér. Skilaboð bíða þín í símanum sem minna þig á að mæta tímanlega í vinnuna. Allir dagar eru álíka ömurlegir. Þunglyndið er að éta þig að innan.

Tölvuleikurinn Mosaic.
 Mynd: Krillbite
Mosaic.

Á þessum nótum hefst leikurinn Mosaic frá norska tölvuleikjafyrirtækinu Krillbite Studio. Í leiknum stjórnar þú lífsþreyttum manni sem efast um braut sína í lífinu. Leikurinn dregur spilarann fljótt inn í kaldan og myrkan veruleikann sem sýgur úr honum alla lífsorku. Það eina sem virðist skipta máli er að vinna sem mest svo hægt sé að borga sem flesta reikninga. Leikurinn vekur áhugaverðar spurningar um lífið, tilganginn og tilveruna. Fær spilarann til að líta í eigin barm og hugsa um sína stefnu í lífinu og hvað það er sem gefur lífinu í raun og veru gildi.

Flestir tölvuleikir eru hannaðir með skemmtanagildi í huga, en til eru margs konar leikir þar sem áherslurnar eru aðrar. Þar má nefna kennsluleiki, sem eru sérstaklega hannaðir með nám og kennslu í huga. Einnig eru til svokallaðir hugvekjuleikir (social impact games) sem ýta undir að spilarinn velti fyrir sér því málefni sem leikurinn tekur fyrir. Einnig má nefna alvarlega leiki (serious games) sem eru ekki endilega hannaðir með skemmtanagildi í huga, heldur eru gerðir til dæmis til að þjálfa ákveðna hegðun eða viðbrögð. Hægt er að skilgreina Mosaic sem hugvekjuleik þar sem hann fær mann til að hugsa um málefni sem tengjast stórum lífsspurningum fullorðinsáranna. Leikurinn er djúpur og þungur og er nokkuð gott dæmi um hversu þroskaðir tölvuleikir eru orðnir.

Mynd með færslu
 Mynd: Numinous
That Dragon, Cancer.

That Dragon, Cancer er annað dæmi um hugvekjuleik. Í honum er sagt frá baráttu fjögurra ára drengs, Joels Greens, við krabbamein. Leikurinn, sem er ljóðrænn og tilfinningaríkur, er byggður á raunverulegum atburðum. Joel Green var til. Árið 2010 fengu foreldrar hans þær fréttir að barnið þeirra, sem var þá aðeins  ársgamalt, ætti aðeins örfáa mánuði eftir ólifaða. Joel náði þó fimm ára aldri, en þá varð krabbameinið honum að bana. Í leiknum ganga spilarar í gegnum þann mikla tilfinningarússíbana sem það er að ala upp langveikt barn. Leikinn hönnuðu foreldrar Joels sem eins konar minnisvarða um son sinn. Hann togar í tárakirtlana og fyllir spilarann gleði og sorg til skiptis. Leikurinn fær fólk til að hugsa og veitir innsýn í heim og reynslu annarra. Maður fyllist sjálfkrafa þakklæti fyrir að eiga heilbrigð börn og fer að hugsa um hversu mikilvægt það sé að sýna öðrum stuðning og skilning á erfiðum tímum.

Tölvuleikir geta framkallað alls konar tilfinningar hjá spilaranum, bæði neikvæðar og jákvæðar. Hvort sem þú efast um tilgang lífs þíns eftir að hafa spilað Mosaic eða ferð að sinna langveiku barni í That Dragon, Cancer, þá víkkar  sjóndeildarhringur okkar óneitanlega við að spila slíka leiki. Í þeim fáum við að setja okkur í spor annarra og kynnast öðrum heimi en okkar eigin. Það sem gerir tölvuleiki einstaka er sú gagnvirka upplifun sem þeir hafa upp á að bjóða . Tölvuleikir krefjast þess að þú, spilarinn, takir virkan þátt í því sem er að gerast á skjánum. Þú ert ekki að horfa á þennan einmana skrifstofumann efast um líf sitt - þú ert hann, þú efast um líf þitt. Þú ert ekki að fylgjast með foreldrum Joels skapa góðar minningar með honum og ganga í gegnum erfiða tíma - heldur ert þú á staðnum og tekur virkan þátt í lífi þeirra. Þú ert beinn þátttakandi og hefur áhrif á hvað gerist næst. Þess vegna eru tölvuleikir og þá sérstaklega hugvekjuleikir svo áhrifaríkir. Þú ert með þessar tilfinningar og þú þarft að taka afleiðingum þinna ákvarðana í leiknum.

Til er fjöldi hugvekjuleikja sem taka fyrir flókin og erfið málefni á borð við kvíða, alkóhólisma, fórnalömb stríðs, fíkn og einhverfu svo eitthvað sé nefnt. Ég hvet fólk til að prófa hugveikjuleiki og kynna sér þann tölvuleikjaflokk betur. Hægt er að nálgast lista yfir nokkra hugveikjuleiki á slóðinni GamesForChange.org.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ör þróun á sviði tölvuleikja í hálfa öld