Bjarki Þór Jónsson skrifar:
Þú vaknar á grámyglulegum degi eftir lítinn svefn. Þú fórst of seint að sofa. Hékkst of lengi í símanum. Þú ert einmana og þér líður illa. Verður samt að fara á fætur og mæta í vinnuna. Reikningarnir borga sig nefnilega ekki sjálfir. Þú tekur þig til og gengur út úr blokkaríbúð þinni. Í lyftunni hittir þú nágranna þína. Þeir heilsa þér ekki heldur líta undan. Þeir vilja ekkert með þig hafa. Þú kíkir í póstkassann þinn á leiðinni út. Ekkert nema reikningar. Þú ert fljótur að loka póstkassanum aftur og vildir óska þess að þú hefðir ekki kíkt í hann. Þú gengur einn í vinnuna. Það rignir. Þú andar að þér mengandi útblæstri bílanna sem keyra fram hjá þér hver á eftir öðrum. Borgin er dimm og litlaus. Þegar þú mætir í vinnuna færðu samstundis viðvörun fyrir að vera nokkrum mínútum of seinn. Þú gætir misst vinnuna með þessu áframhaldi. Þér líður eins og þú sért að drukkna. Endalaust álag sem ekki sér fyrir endann á. Þú sérð ekki lengur tilgang með lífinu. Til hvers er ég að þessu? Spyrðu sjálfan þig. Fyrir hvern er ég að lifa? „Haltu áfram!“ er kallað í átt að þér. Þú lítur aftur á tölvuskjáinn og reynir að einbeita þér að starfinu. Að vinnudegi loknum gengur þú heim og leggst upp í rúm. Ákveður að kíkja aðeins á símann fyrir svefninn og gleymir þér í honum, eins og svo oft áður. Þér líður eins og þú hafir rétt svo blikkað augunum þegar þú vaknar við vekjaraklukkuna. Enn annar grámyglulegur dagur tekur á móti þér. Skilaboð bíða þín í símanum sem minna þig á að mæta tímanlega í vinnuna. Allir dagar eru álíka ömurlegir. Þunglyndið er að éta þig að innan.