Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leikhús 2.0

Mynd:  / 

Leikhús 2.0

26.02.2019 - 19:45

Höfundar

Þitt eigið leikrit er fyrirtaks skemmtun og í raun uppfærð útgáfa af leikhúsi, þar sem tækni gerir ýmislegt mögulegt sem áður var ekki hægt að láta sig dreyma um, að mati gagnrýnanda Menningarinnar.

Brynhildur Björnsdóttir skrifar:

Hugarfóstur Ævars Þórs Benediktssonar, sem eiginlega er best að kalla Þín eigin- heiminn hefur sigrað huga og hjörtu íslenskra barna og fullorðinna líka síðan fyrsta bókin, Þín eigin þjóðsaga, kom út árið 2014. Alls eru komnar fimm bækur í flokknum, auk léttlestrarbóka. Þitt eigið leikrit, Goðsaga, er byggt á annarri bókinni í flokknum.

Ég væri óheiðarleg ef ég viðurkenndi ekki að hafa fundið til örlítilla efasemda þegar fregnir bárust af því að til stæði að setja upp leikrit sem byggði á þessum söguheimi. Aðferðafræðin, sem felst í því að lesandinn fær að velja hvernig sagan þróast og getur jafnvel lesið sömu söguna nokkrum sinnum með mismunandi framvindu og niðurstöðu, gengur mjög vel upp í bók þar sem hægt er að fletta fram og til baka en mér fannst erfitt að sjá fyrir mér hvernig væri hægt að láta hana ganga upp í leikhúsi. En skemmst er frá að segja að efasemdirnar gufuðu upp eins og dögg fyrir sólu þegar ég steig inn í Kúluna á laugardaginn og beint inn í Þín eigin -heiminn.

Stigið inn í söguheiminn

Flest barnaleikrit sem eru á fjölunum í vetur og jafnvel undanfarin ár hafa verið byggð á vinsælum barnabókum. Nægir að nefna Ronju ræningjadóttur Astridar Lindgren í Þjóðleikhúsinu, Matthildi Roalds Dahl sem verður frumsýnd í Borgarleikhúsinu í mars og Gallsteina afa Gissa sem var frumsýnt á laugardaginn og er byggt á sögu Kristínar Helgu Gunnarsdóttur. Að sumu leyti er forgjöf í því að byggja leikrit á ástsælli bók þar sem áhorfendur þekkja sögupersónurnar og söguheiminn en það getur líka valdið vonbrigðum ef leikritið stendur ekki undir væntingum þess sem hefur lifað og hrærst í söguheiminum og haft þar allt hönnunarvald þó eftir forskrift rithöfundarins sé.

Mynd með færslu
 Mynd:

Söguheimur Högna Sigþórssonar stendur fyllilega undir sér gagnvart kröfuhörðum lesendum Þín-eigin bókanna enda mikið lagt upp úr sköpun hans strax þegar komið er inn í leikhúsið, þar ber fyrir augu allskonar myndir og hljóðskúlptúra, sumt gagnvirkt, en líka auglýsingatöflu þar sem Loki auglýsir til að mynda eftir barnfóstru sem þarf ekki að hafa gaman af börnum en þeim mun meira af skrímslum, herbergi Fenrisúlfs, steintöflu sem hrekkur í sundur og í loftinu má sjá hafið skvettast úr strjúpanum á hálshöggnum Ými. Sögusviðið er sett í anddyrinu og því eru áhorfendur löngu komnir í stellingar þegar opnað er inn í salinn.

Kosið og flossað

Leikritið hefst á því að Loki Laufeyjarson sem Snorri Engilbertsson gerir einkar góð skil og hjálparhönd hans Einar (sem er hendi og vakti gríðarlega kátínu hjá mínum börnum, sem og allar vísanir um að hann ætti að standa á höndum, gefa sjálfum sér fimmu o.s.frv.), afskaplega skemmtilega leikinn af Hilmi Jenssyni, kynna nokkur grundvallaratriði fyrir áhorfendum, þó einkum fjarstýringarnar sem notaðar eru til að greiða atkvæði. Þær eru við hvert sæti og gefa fjóra möguleika á atkvæðum þó ekki séu þeir alltaf allir nýttir. Nokkur stund fer í að segja frá og prófa fjarstýringarnar en það kom ekki að sök þar sem áhorfendur virtust skemmta sér hið besta við það. Og að fá að greiða atkvæði í leikhúsi er góð skemmtun fyrir alla aldurshópa.

Mynd með færslu
 Mynd:
Fjarstýringin sem leikhúsgestir nota til að greiða atkvæði um framvinduna.

 

Að því loknu fáum við snögga fræðslu um norræna goðafræði sem gerir það að verkum að það er ekki nauðsynlegt að hafa lesið bókina, þekkja goðafræðina til hlítar eða þekkja Þín eigin- heiminn til að njóta sýningarinnar. Að öllu þessu loknu hefst svo aðalframvindan, þar sem kynntir eru til leiks þrír keppendur í spurningaþættinum Loka Svar. Áhorfendum gefst kostur á að kjósa hver þeirra fær að lenda í ævintýri og að þeirri atkvæðagreiðslu lokinni er kosið um fatnað og vopnabúnað þess keppanda, fjórði veggurinn verður til á sviðinu og leikritið getur hafist. Það var mjög skemmtilega unnið með hugmyndina um fjórða vegginn og mínir leikhúsfélagar tíu og þrettán ára voru mjög heillaðir af þessari hugmynd. Einn ungur leikhúsgestur vildi hinsvegar fá að fara heim á meðan á þeirri kynningu stóð, sem segir kannski eitthvað um hversu vandasamt er að gera verk sem hentar öllum aldri.

Það er ekki ástæða til að rekja söguþráðinn lengi hér enda er hann einn af þremur mögulegum sem hafa raðast nokkuð jafnt niður á sýningar, skilst mér, Lára Jóhanna Jónsdóttir leiddi atburðarásina á sýningunni sem við fórum á og við misstum því af að sjá hana í hlutverki Heljar. Sólveig Arnarsdóttir lék Sif sem þarna var fulltrúi valkyrjanna, Baldur Trausti Hreinsson lék Óðinn og Hilmir Jensson var Þór. Leikararnir eru langt frá því að vera í aðalhlutverki á þessari sýningu en þeim leið greinilega vel og höfðu öll vald á kómískum tímasetningum á orðaleikjum og vísunum sem úir og grúir af í sýningunni og er eitt höfundareinkenni Ævars. Þá er allur bragur sýningarinnar í anda þeirrar blöndu af einlægni, án óeinföldunar, og brennandi áhuga á viðfangsefninu sem Ævar Þór hefur tamið sér svo vel í öllu efni sínu og samskiptum við börn.

Mynd með færslu
 Mynd:
Brynhildur Björnsdóttir, leikhúsrýnir Menningarinnar.

Sýningin er tæpur klukkutími sem gerir það að verkum að ekki er pláss fyrir djúpa vinnslu á goðafræðinni, persónusköpun eða framvinduþróun, sem er kannski það sem eldri leikhúsgestir eiga von á þegar þeir fara í leikhús, en það er brjálað stuð allan tímann og markhópurinn, börn á öllum aldri, skemmti sér konunglega þó stundum hafi gætt aldursmunar í skilningi og hávaðaþoli. „Það var mikið kosið og mikið flossað,“ eins og ég heyrði einn áhorfanda andvarpa hamingjusaman á leið út úr leikhúsinu.

Uppfærð útgáfa af leikhúsi

Þess má geta að leikhúsmiðinn gefur afslátt á aðra sýningu svo það er möguleiki að fara aftur og aftur í leikhúsið og upplifa stöðugt nýja útgáfu enda skilst mér að það séu eitthvað um 3000 valmöguleikar í kosningunni.

Ég var með tíu og þrettán ára með mér á sýningunni sem báðar skemmtu sér stórvel og sjálf gerði ég það líka. Í raun má segja að þessi leiksýning sé Leikhús 2.0, uppfærð útgáfa af leikhúsi þar sem tækni gerir ýmislegt mögulegt sem áður var ekki hægt að láta sig dreyma um. Í framhaldi af því er gaman fyrir leikhúsáhugafólk að ímynda sér sýningu á Rómeó og Júlíu þar sem hægt er að kjósa um hvort Tíbalt drepur Merkútsíó eða hvort allir verða bara vinir að lokum. Langt frá því að vera hefðbundið leikhús en hundrað prósent leikhús engu að síður.

Tengdar fréttir

Leiklist

Snubbóttur endir á gagnvirku leikriti

Leiklist

Áhorfendum að kenna ef verkið endar illa

Bókmenntir

Ævar vísindamaður skrifar ofurhetjur

„Merkilegasta skeyti sem fyrirfinnst“