Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leikfélag Fljótsdalshéraðs fékk ekki svið á Egilsstöðum

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

Leikfélag Fljótsdalshéraðs fékk ekki svið á Egilsstöðum

17.11.2019 - 15:10

Höfundar

Formaður leikfélags Fljótsdalshéraðs segir að það sé í raun á götunni á meðan ekki sé ráðist í að byggja almennilega sviðsaðstöðu á Egilsstöðum. Ekki var hægt að setja upp Línu Langsokk í Valaskjálf vegna árekstra við veitingarekstur í húsinu og er sýnt á Eiðum.

„Við fengum núna að vera hérna á Eiðum, það svona gekk fyrir rest. Við getum ekki verið í Valaskjálf. Við erum í raun og veru húsnæðislaus. Við þurfum að leita og leita og þetta er bara ekki gott. Þetta er náttúrulega margfalt meiri vinna fyrir okkur. Miklu erfiðara og þarf af leiðandi verður miklu erfiðara að fá fólk til að koma inn í félagið og starfa. Við erum að bera dót fram og til baka því við höfum ekki fastan stað sem leikhús. Það vantar,“ segir Fjóla Egedía Sverrisdóttir sýningarstjóri.

Áform um blackbox í menningarhúsi

Uppselt hefur verið á flestar sýningar og mikil eftirspurn er eftir starfseminni. Leikfélagið er með æfingaaðstöðu í Fellabæ, að minnsta kosti fram að áramótum, en hefur sóst eftir því að fá gamla kornbraggann við Sláturhúsið á Egilsstöðum. Í Sláturhúsinu er menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs en ekkert svið sem hentar. Þetta gekk upp á meðan hægt var að sýna í Valaskjálf en það er nú í einkaeigu.

Leikfélagsformaðurinn Ásgeir Hvítaskáld leiðir okkur upp mjóan brattan járnstiga og sýnir okkur hvar leikfélagið kúldrast með leikmuni og búnað. „Núna erum við uppi á háaloftinu fyrir ofan bæjarskrifstofurnar. Hér þarf maður að beygja skallann. Hérna eru leikmunir, hér er svona baðhringur, og vængir og eitthvað. Þetta eru konujakkar. Það er ægilega vinna að þurfa að bera þetta alltaf niður og upp. Við erum í raun og veru ekki með neitt alvöru leiksvið. Af því að það er búið að breyta Valaskjálf eiginlega í svona veitingarekstur. Þar er veitingastaðurinn opinn eftir klukkan sex á daginn og það er ekkert hægt að sýna þar á kvöldin. En Valaskjálf var félagsheimili hérna og besta svið á öllu Austurlandi,“ segir Ásgeir.

Aðspurður um hvort svokallað blackbox-aðstaða, svartmálað kassalaga rými, sem á að byggja upp í Sláturhúsinu gamla, henti leikfélaginu, segir hann. „Já, vissulega bara ef þeir komast í gang með það einhvern tíma það er búið að standa til í mörg herrans ár. Þar á að lyfta þakinu á gamla frystiklefanum þarna og gera blackbox. Þar er smá aðstaða fyrir leikarana til þess að fara í búninga og sminka sig og fara á svið en ekkert annað. Við þurfum að hafa aðstöðu til þess að smíða leikmyndirnar okkar og við erum með ljós sem eru níðþung. Það er ekki hægt að bera þau alltaf hérna upp á þetta loft. Þó það sé að koma blackbox eftir 5 eða 10 ár en á meðan erum við á götunni,“ segir formaður leikfélags Fljótsdalshéraðs. 

Hlusta á fréttatíma

Tengdar fréttir

Menningarefni

Uppbygging gjörbylti aðstöðu til leiksýninga

Austurland

480 milljónir í menningarhús á Egilsstöðum

Austurland

Nýtt menningarhús á Egilsstöðum óraunhæft

Leiklist

Gulltenntur hrossabóndi ætlar að deyja