Leigubílstjóri smitaðist þegar hann ók fjórum smituðum

08.03.2020 - 19:01
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Leigubílstjóri smitaðist þegar hann ók með fjóra smitaða farþega frá Keflavíkurflugvelli þarsíðasta laugardag. 55 Íslendingar hafa nú greinst með veiruna. Tíu smituðust hérlendis en aðrir á skíðasvæðum í Ölpunum, nema einn sem er talinn hafa smitast í Asíu. Enginn þeirra er alvarlega veikur og enginn hefur þurft að leggjast inn á spítala af heilsufarsástæðum. Hátt í 500 eru í sóttkví hérlendis og álíka mörg sýni hafa verið tekin til greiningar. 

Einn þeirra sem smituðust innanlands er leigubílstjóri sem smitaðist þegar hann ók með fjóra farþega frá Keflavíkurflugvelli til höfuðborgarsvæðisins, sem allir reyndust með veiruna. Fólkið hafði verið á skíðum á Norður-Ítalíu. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir að vel hafi gengið að rekja ferðir leigubílstjórans.

„Það var allt mjög vel skráð í tölvukerfum þessarar leigubílastöðvar þannig að við náðum mjög fljótt utan um það. Þetta var fjögurra tíma tímabil sem að við teljum að hann hafi getað verið að smita og þetta voru 21 einstaklingur sem að við náðum í og þeir eru allir komnir í sóttkví.“

- Hefur einhver þeirra reynst smitaður?

„Nei, enginn og það er enginn með einkenni svo best sem ég veit. Þetta er einn af þeim hópum sem að við munum fylgjast hvað best með, sem er þá þriðja smit, og við fylgjumst mjög vel með þessu en það er ekkert hægt að segja á þessari stundu um það.“

- Hefur eitthvað slíkt þriðja smit greinst?  

„Nei ekki neitt, þetta er allt með beina tengingu í einhvern sem er að koma frá Austurríki eða Norður-Ítalíu.“ 

Víðir segir að aðstæðurnar þar sem leigubílstjórinn smitaðist hafi verið sérstakar, þar sem hann var í nánd við fjóra smitaða í meira en 45 mínútur. 

„Ég held að þetta hafi verið mjög sérstakar aðstæður og ég held að á meðan menn gæta að þessum smitvörnum sem að menn eru að tala um og leigabílastöðvarnar eru með ákveðna viðbragðsáætlun í gangi varðandi þrif og annað slíkt að þá heldur þessi starfsemi áfram,“ segir Víðir. Besta leiðin til að forðast smit sé að þvo hendur og spritta, og gæta þess að koma ekki við andlitið með fingrunum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra.
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi