Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leiðtogarnir vilja nær allir Sundabraut

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Oddvitar stærstu flokkanna í Reykjavík vilja nær allir Sundabraut og stjórnarandstaðan er hlynnt einkaframkvæmd. Samgöngu- og skipulagsmál voru áberandi í leiðtogaumræðum í Gamla bíói í morgun.

Samtök Atvinnulífsins, ferðaþjónustunnar, iðnaðarins og verslunar og þjónustu boðuðu leiðtoga stærstu flokkanna til fundarins þar sem rætt var um sambúð borgar og atvinnulífs. Mestur tími fór í samgöngumál. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði að ríkið hefði aldrei veitt fjármagn í Sundabraut þó hún hafi verið á aðalskipulagi Reykjavíkur í áratugi. „Það er hins vegar reglan þegar að samgönguráðherra, hver sem það er, lendir í vandræðum út af alls óskyldu máli þá fer hann að tala um Sundabraut og lætur eins og standi á borginni að hún hafi ekki komist til framkvæmda.  Við erum áfram með Sundabraut í skipulagi, það veltur á ríkinu að fjármagna hana. Viltu Sundabraut? Já, við viljum hana á ytri leið í göngum,“ segir Dagur. 

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir Sundabraut forgangsmál fyrir borgina. „Mér sýnist að Dagur hafi reynt að stúta Sundabrautinni með því að fara í Vogabyggð sem að kostar borgina kannski 10-15 milljarða meira og þá er náttúrulega eðlilegt að hún verði ekki arðsöm ef borgin er búin að gera hana óhagkvæmari. Við teljum að Sundabraut sé forgangsmál fyrir borgina, ekkert endilega fjármögnuð af ríkinu, það er líka hægt að gera það með lífeyrissjóðum og öðrum, eða með einkaframkvæmd,“ segir Eyþór. 

Bæði Framsóknarflokkur og Miðflokkur vilja Sundabraut í einkaframkvæmd. Vigdís Hauksdóttir leiðir Miðflokkinn. „Ef að það er þannig að ríkið á ekki pening þá tölum við við lífeyrissjóðina eða einkaaðila til að gera þetta bara fyrir okkur,“ segir Vigdís. Hún gagnrýndi meirihlutann fyrir að hafa hætt við Sundabraut á sínum tíma og undir það tóku leiðtogar flokkanna sem ekki eru í í stjórn. Ingvar Jónsson, oddviti Framsóknarflokksins, sagði sérfræðinga Vegagerðarinnar undrandi á því steinn hefði verið lagður í götu Sundabrautar á innri leið með lóðaúthlutunum við Voga. Hann segist opinn fyrir einkaframkvæmd. „Við erum opin fyrir því, og að það sé gjaldtaka, svo lengi sem það er önnur leið úr borginni,“ segir Ingvar. 

Píratar og Vinstri græn vilja Sundabraut en Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, segir að hún geti beðið og líst illa á frekari stórframkvæmdir. „Við viljum auðvitað ekki gera Reykjavík að stórum mislægum gatnamótum og hér er bara tölum steypa verð ég að segja, eins og Skerjabrautin og eitthvað fleira,“ segir Líf. „Við myndum vilja sjá Sundabraut ytri. Það er vegna þess að það er lýðræðislegt, borgarar sem að búa í nærliggjandi hverfum hafa valið þessa lausn og hún er einnig umhverfisvænni,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata. 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, sem leiðir lista Viðreisnar, vill bæta samgöngur til og frá borginni og niðurstaða verði að liggja fyrir sem fyrst. „Ákveðum þetta og stöndum við það, því við getum ekki verið hérna eftir tuttugu ár ennþá að þræta um flugvöllinn, Landspítalann eða hvernig við ætlum að keyra út úr þessari borg,“ segir Þórdís.