Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leiðtogafundur G7 ríkja ekki á Trump-hóteli

20.10.2019 - 05:26
epa07931004 US President Donald J. Trump speaks during a congratulatory call to NASA astronauts Jessica Meir and Christina Koch after they conducted the first all-female spacewalk outside of the International Space Station, from the Roosevelt Room at the White House, Washington, DC, USA, 18 October 2019.  EPA-EFE/Chris Kleponis / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Polaris POOL
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, tilkynnti í gær að leiðtogafundur G7-ríkjanna á næsta ári yrði ekki haldinn í golfmiðstöð hans í Flórída eins og Mick Mulvaney, starfsmannastjóri Hvíta hússins, greindi frá á fimmtudag og að verið væri að skoða aðra möguleika, þar á meðal sveitarsetur forsetaembættisins, Camp David.

TIlkynning Mulvaneys um að forsetinn hygðist halda leiðtogafundinn í Doral-golfmiðstöðinni í Miami, sem er í eigu Trump-samsteypunnar, vakti hörð viðbrögð vestra. Var forsetinn sakaður um að skara eld að eigin köku og fara í bága við allar reglur sem ætlað er að verja forsetaembættið og hvern sem því gegnir gegn mögulegum hagsmunaárekstrum og utanaðkomandi þrýstingi.

Demókrötum á þingi var svo misboðið að þeir boðuðu á föstudag frumvarp að sérstökum lögum, sem ætlað var að hindra forsetann í þessari fyrirætlan sinni með því að banna allar opinberar fjárveitingar til fundarins, færi hann fram á Doral-setrinu.

„Vegna brjálæðislegrar og óskynsamlegrar fjandsemi bæði fjölmiðla og Demókrata, þá lítum við ekki lengur á Trump National Doral í Miami sem mögulegan vettvang  fyrir G7-leiðtogafundinn árið 2020,“ skrifar forsetinn á Twitter. „Við munum strax byrja að skoða aðra staði, þar á meðal Camp David.“ 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV