Leiðtogafundi Kóreuríkjanna fagnað

27.04.2018 - 11:12
epa06696416 North Korean leader Kim Jong-Un (L) and South Korean President Moon Jae-In (R) shake hands after announcing an agreement after signing a document at the Peace House on Joint Security Area (JSA) on the Demilitarized Zone (DMZ) in the border
 Mynd: EPA-EFE - Korea Summit Press Pool
Þjóðarleiðtogar víða um heim fagna samkomulagi leiðtoga Suður- og Norður-Kóreu um að hefjast handa við að eyða öllum kjarnorkuvopnum á Kóreuskaga. Þeirra á meðal er Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. Hann hvetur ráðamenn í Norður-Kóreu til að grípa til áþreifanlegra aðgerða til að sýna að þeim sé alvara. Þá bindur hann vonir við að fundur Kims Jong-uns og Donalds Trumps Bandaríkjaforseta verði árangursríkur. Hann verður haldinn á næstu vikum.

Donald Trump segir á Twitter að fundur leiðtoganna á einskismannslandinu milli Kóreuríkjanna hafi veirð sögulegur. Hann segir að tíðindin af fundinum séu góð, en einungis tíminn leiði í ljós hvort staðið verði við stóru orðin. Hann kveðst vonast til þess að brátt sjái fyrir endann á stríðinu milli Kóreuríkjanna.

Stjórnvöld í Rússlandi segja sömuleiðis að það séu jákvæðar fréttir að leiðtogarnir hafi sammælst um að eyða öllum kjarnorkuvopnum af Kóreuskaga. Horfur á samkomulagi séu góðar.

Sjálfur sagði Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, eftir fund leiðtoganna að hann hefði verið mikilvægilegt skref í að fjarlægja öll kjarnorkuvopn af Kóreuskaga. Norðanmenn hefðu þegar lýst því yfir að allar tilraunir með þau hefðu verið stöðvaðar.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi