Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leiðrétt hliðarveröld og hjartsláttur borganna

Mynd: RÚV / RÚV

Leiðrétt hliðarveröld og hjartsláttur borganna

17.06.2019 - 08:55

Höfundar

Sýningin Leiðréttingar var opnuð í Hverfisgalleríi á dögunum. Þar sýnir Sigurður Árni Sigurðsson um 70 ljósmyndir og póstkort sem hann hefur fundið á mörkuðum á meginlandi Evrópu undanfarin 30 ár og málað og teiknað á þær viðbætur frá eigin brjósti.

„Það er dálítið merkilegt fyrir mig að sjá þetta svona margar saman. Ég er búinn að sýna þetta gegnum tíðina, aldrei svona margar í einu,“ segir Sigurður Árni um sýninguna en við sama tilefni kom út vegleg bók um Leiðréttingar hans, sem eru nú orðnar um 200 talsins. Upphafið má rekja til þess þegar Sigurður Árni lauk námi í Frakklandi sumarið 1990 og var boðin vinnuaðstaða í bænum Sète í Suður-Frakklandi.

„Það var einhver hefð í bænum, fólk fór ekki í kirkju heldur hittist á markaðstorginu. Það var hálfgert ritúal og maður fór bara að taka þátt í þessu,“ segir Sigurður. Þar hafi hann byrjað að safn handlituðum póstkortum. „Handlitaðar ljósmyndir og prentaðar í póstkort. Ástæðan fyrir því að ég fékk áhuga á þessu var að litirnir eru svo skrítnir á þessum póstkortum; þetta eru oft klisjur sem hitta kannski ekki alveg á. Þetta fannst mér mjög áhugavert og fór að safna þessu.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Eitt af kortunum sem hann fann var með svarhvítri mynd af svörtum hundi, sem Sigurður hafði á vinnuborðinu hjá sér. „Tveimur árum seinna þá lít ég á þennan pappír og hélt áfram með skuggana vegna þess að þetta var nátengt því sem ég var að gera í málverkinu líka, það er að segja þessi spurning um forgrunn og bakgrunn. Spurning um objektin, er objektið ljósmyndin eða er það teikningin mín og allt þetta. Þetta var í raun og veru upphafið að þessari seríu. Þetta byrjaði sem rannsókn hjá mér en svo smám saman verður þetta leikur.“

Sigurður Árni segir kortin oft liggja á vinnuborðinu hjá sér mánuðum saman áður en hann gerir úr þeim Leiðréttingum. Allar myndir hafi ákveðin hliðarveruleika, það þurfi bara að finna hann. Og Sigurður Árni safnar enn kortum og myndum. „Ég fer á markaði og ég geri í því ef ég er á nýjum stað. Það er einhver hjartsláttur svæðisins sem kemur oft fram í mörkuðum. Ég leita ekki markvisst, þetta er eitthvað sem á að detta í hendurnar á mér.“

Tengdar fréttir

Myndlist

Listin sem dyr inn í aðra heima

Myndlist

Draumalaug Finnboga Péturssonar í Hafnarhúsinu

Menningarefni

Vestfirskir veggir prýddir ástralskri list

Myndlist

Þögnin getur verið öflug í myndlist