Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Leiðinlegar og óspennandi myndir ríkjandi

Mynd með færslu
 Mynd:

Leiðinlegar og óspennandi myndir ríkjandi

27.09.2013 - 19:44
Leiðinlegar og óáhugaverðar myndir eru ríkjandi í kvikmyndaheiminum og gott ef fleiri betri myndir yrðu gerðar. Þetta segir sænski kvikmyndaleikstjórinn Lukas Moodysson sem er staddur hér á landi.

Moodysson er heiðursgestur RIFF, alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík. Hann vakti fyrst athygli með myndinni Fucking Åmål árið 1998. Hún fjallar um ástir tveggja unglingsstúlkna og haft var eftir kvikmyndaleikstjóranum Ingmar Bergman á sínum tíma að myndin væri meistaraverk.

Meðal mynda leikstjórans sem eru sýndar á RIFF er sú nýjasta sem nefnist Vi är bäst. Þar segir frá þremur þrettán ára stúlkum sem ákveða að stofna pönkhljómsveit, snemma á níunda áratugnum. Moodysson segist vona að myndin höfði ekki eingöngu til fullorðinna sem fullir séu af fortíðarþrá. Hann voni að hún höfði einnig til ungs fólks í dag, að það taki myndina til sín.

Fyrir áratug varð kvikmynd Moodyssons Lilja 4-ever kveikja að umræðu um mansal, en telur Moodysson að umræðan hafi haft mikil áhrif?

Móodysson segist telja að hún hafi haft áhrif á margt, en geti ekki svarað hverju hún breytti. Hann sé þeirrar skoðunar að þegar hann sendi verk út í heiminn geri fólk það sem því sýnist, það sé ekki lengur á hans valdi.

Fyrir fjórum árum gerði Moodysson myndina Mammut, á ensku með Gael García Bernal og Michelle Williams í aðalhlutverkum. Stefnir hann aftur á erlend mið?

Hann segist telja að hann sé mjög skandinavískur og mjög sænskur. Honum líði vel heima hjá sér, en gott sé að vera á Íslandi. Þægilegt sé að þessu sinni að gera mynd á eigin tungu. Honum þyki best að vinna á sænsku. Hann geti talað ensku þokkalega, en það glatist mikið að vinna á annarri tungu.

Verk Moodyssons eru gjarnan kennd við femínisma en sjálfur segist hann ekki vera sérstaklega pólitískur. Um stöðu kvenna í íslenskri og sænskri kvikmyndagerð segir hann að það sé galið að annað kynið sé ríkjandi í ákveðnum bransa. Það sé eitthvað karllægt í kvikmyndaheiminum og sér leiðist það. Kvikmyndabransinn sé undirlagður af leiðinlegum og óspennandi bíómyndum. Gaman væri að sjá fleiri góðar myndir. Það gildi einu hvort konur eða karlar geri þær.