
Hann hvetur háskólafólk til að kynna sér málavöxtu áður en það tekur afstöðu í málinu.
Háskólakennarar sendu frá sér yfirlýsingu í gær vegna kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurðssyni, stundakennara við guðfræðideild Háskóla Íslands. Þar segir að siðanefnd Háskóla Íslands hafi spillt málinu öllu með því að leggja fram sáttatillögu þar sem fallist var á sekt kennarans án samþykkis hans og án þess að nauðsynlegra gagna hafi verið aflað um málið. Segir í yfirlýsingunni, sem á annað hundrað háskólamenn skrifa undir, að álit siðanefndar geti falið í sér aðför að skólastarfi í landinu.
Engin kæra liggur fyrir
Ingvar Sigurgeirsson var skipaður formaður siðanefnar sem fjallaði um málið. Hann sendi starfsfólki Háskólans póst í gær þar sem hann hvetur það til að kynna sér erindi Vantrúar, kennsluefnið í námskeiðinu sem samtökin gagnrýndu og greinagerð Bjarna, - áður en það taki afstöðu í málinu. Hann bendir á að kæran hafi verið dregin til baka í apríl síðastliðnum og því liggi engin kæra fyrir í málinu.
Það hafi verið verkefni siðanefndarinnar að kynna sér málið til hlítar. Þau áform hafi þó ekki náð fram að ganga, þar sem Bjarni sjálfur hafi kosið að ræða ekki við nefndina og hafi talið nefndarmenn alla vanhæfa. Þá bendir hann á að nokkrir þeirra sem undirita yfirlýsinguna hafi með formlegum hætti lagst gegn því að nefndin fengi tiltekin gögn í málinu.
Leggur til sanngjarnar bætur
Ingvar segir umræðuna hafa einkennst af hroka. Á öllum stigum málsins hefði verið hægt að leysa það með yfirvegaðri og málefnalegri samræðu. Þá leggur hann til að Bjarni Randver fái sanngjarnar bætur vegna þess skaða sem hann hafi orðið fyrir en bendir jafnframt á að málið hafi skaðað marga aðra, sem og skólann.