Leggur til 30 daga bann við ónauðsynlegum ferðalögum

16.03.2020 - 16:41
epa05050241 German Defence Minister Ursula von der Leyen before the German Federal Govenment Cabinet meeting in Berlin, Germany, 01 December 2015. The meeting is expected to discuss the German Governemnt's response to the coflist against the Islamis
Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands. Mynd: EPA - DPA
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, leggur til bann við ónauðsynlegum ferðum til aðildarríkja Evrópusambandsins í 30 daga, að því er hún greinir frá á Twitter. Ætlunin er að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19 kórónaveirunnar. Þessar takmarkanir myndu einnig ná til ríkja sem ekki eiga aðild að ESB en eiga aðild að Schengen, líkt og Ísland.

Forsetinn sagði á fundi með blaðamönnum í dag að ferðabannið myndi ekki ná til ferðalaga frá Bretlandi, sem nú er að ganga úr Evrópusambandinu. Þá sagði hún mikilvægt að heilbrigðiskerfi landanna ráði við að taka á móti öllum þeim sjúklingum sem eru alvarlega veikir. Því sé brýnt að grípa til allra mögulegra aðgerða til að minnka samneyti fólks til að útbreiðsla veirunnar verði sem minnst. Ef fólk ferðist minna verði frekar hægt að minna útbreiðslu veirunnar. Til að halda hjólum efnahagslífsins gangandi sé mikilvægt að vörur verði áfram fluttar til aðildarríkjanna, sagði von der Leyen.

„Við teljum að verulega þurfi að draga úr ónauðsynlegum ferðalögum núna til að koma í veg fyrir að veiran breiðist víðar út, hvort sem það er innan Evrópusambandsins eða utan þess,“ sagði forsetinn við blaðamenn í dag.

Undanþágur yrðu veittar til ríkisborgara Evrópuríkja sem væru að fara heim, til fjölskyldna þeirra, heilbrigðisstarfsfólks og annarra sérfræðinga sem vinna að því að minnka útbreiðslu veirunnar. Þá myndu sendierindrekar ríkja vera undanþegnir þessum takmörkunum. Tillagan verður lögð fram á fundi leiðtoga aðildarríkja ESB á morgun sem fer fram með fjarfundabúnaði.  

Nokkur aðildarríki ESB hafa þegar gripið til takmarkana á ferðalögum, þar á meðal Danmörk og Pólland.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi