Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leggur fram gögn um leynisamning Deutsche Bank

14.05.2018 - 12:03
Mynd með færslu
Björn Þorvaldsson saksóknari. Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Saksóknari í svokölluðu CLN-máli Kaupþingsmanna leggur eftir hádegi í dag fram fyrir héraðsdómi gögn um tugmilljarða samning Deutsche Bank við Kaupþing ehf. og tvö eignarhaldsfélög sem gerður var í desember 2016. Hæstiréttur ómerkti í október sýknudóm yfir Kaupþingsmönnunum og vísaði heim í hérað vegna þess að margt væri á huldu um samninginn sem gæti haft mikla þýðingu fyrir úrlausn málsins. Því þyrfti saksóknari að rannsaka samninginn og hvað bjó að baki honum.

Björn Þorvaldsson saksóknari vill í samtali við fréttastofu ekki greina efnislega frá niðurstöðu rannsóknar sinnar á samningnum – hann vilji í það minnsta leggja gögnin fram fyrir dómnum fyrst. Hann segist hins vegar telja að efni og ástæða samningsins sé nægilega upplýst með þeim gögnum sem hann hyggst leggja fram, þótt það sé vitaskuld dómarans að meta. Upplýsingarnar hafi bæði verið fengnar með gagnaöflun og skýrslutökum.

Stór hluti fjárins endurheimtist með samkomulaginu

Í CLN-málinu svokallaða voru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, ákærðir fyrir að lána jafnvirði 72 milljarða króna út úr Kaupþingi í flókin viðskipti með svonefnd lánshæfistengd skuldabréf (e. Credit Linked Notes). Magnús Guðmundsson, sem var forstjóri bankans í Lúxemborg, var ákærður fyrir hlutdeild í brotunum.

Í ákæru var því haldið fram að öll fjárhæðin hefði tapast, en með samkomulagi Deutsche Bank frá í fyrravetur, sem nemur jafnvirði um 51 milljarðs, er ljóst að svo er ekki – með því endurheimtist stór hluti fjárins. Samkomulagið var gert í desember 2016, um svipað leyti og aðalmeðferð málsins fór fram í héraði.

Mynd með færslu
 Mynd: Fréttastofa - RÚV

Heyrðu af samkomulaginu í fréttum RÚV

Hvorki Kaupþingsmenn né ákæruvaldið vissu af samkomulagi Deutsche Bank við Kaupþing og félögin tvö, Chesterfield United og Partridge Management Group, fyrr en fréttastofa RÚV greindi frá því í vor. Í kjölfarið kröfðust Kaupþingsmenn þess fyrir Hæstarétti að málinu yrði vísað frá. Í málflutningi í Hæstarétti, sem fréttastofa fjallaði ítarlega um, kom fram að mikil leynd hvíldi yfir samkomulaginu, efni þess og aðdraganda.

Í niðurstöðu Hæstaréttar, þar sem sýknudómurinn var ógiltur, sagði meðal annars:

„Hvorki liggur fyrir af hvaða ástæðum bankinn féllst á að inna þessar greiðslur af hendi né með hvaða rökum eða á grundvelli hvaða gagna [Kaupþing ehf.] og félögin tvö reistu málsóknir sínar á hendur [Deutsche Bank] um greiðslu. Þá liggur heldur ekki fyrir hvers eðlis greiðslurnar voru, hvort um hafi verið að ræða samningsbundnar greiðslur eða hvort þær voru skaðabætur og ef svo var hvers eðlis þær skaðabætur voru.“