Leggur dönsk kvikmyndahús undir sig

Mynd með færslu
 Mynd:

Leggur dönsk kvikmyndahús undir sig

12.10.2013 - 15:00
Baltasar Kormákur er áberandi í dönskum kvikmyndahúsum um þesar mundir. Tvær myndir leikstjórans voru frumsýndar í Danaveldi í vikunni, Hollywood-hasarmyndin 2 Guns með þeim Mark Wahlberg og Denzel Washington og svo Djúpið með Ólafi Darra Ólafssyni.

Ekki hafa margir íslenskir leikstjórar afrekað að frumsýna tvær myndir í Danmörku á sama deginum. Djúpið, byggð á einstöku afreki Guðlaugs Friðþórssonar, og 2 Guns eftir samnefndri myndasögu Stevens Grants, voru báðar teknar til sýninga í dönskum kvikmyndahúsum á fimmtudag. 

Myndirnar eiga þó fátt annað sameiginlegt en leikstjórann. Djúpið er sýnd í fimm kvikmyndahúsum. 2 Guns - hún heitir Dobbelt skyderi á dönsku - í tuttugu, þar af fimm í Kaupmannahöfn. Samtals eru því kvikmyndir Baltasars sýndar í meira en 25 kvikmyndahúsum.

Djúpið hefur vinningin hvað álit gagnrýnenda varðar. Hún er á topp tíu lista kino.dk yfir bestu kvikmyndirnar sem sýndar eru í Danmörku um þessar mundir,  fær að meðaltali fjórar stjörnur af sex.  Per Juul Carslen, gagnrýnandi DR, gefur henni til að mynda fimm stjörnur af sex mögulegum.

2 Guns fær ekki alveg sama stjörnufjölda. Kim Skotte hjá Politken gefur henni þrjár stjörnur af sex,  BT tekur í sama streng, söguþráður myndarinnar sé ekki merkilegur pappír en Washington og Wahlberg haldi henni uppi. 


2 Guns hefur á móti vinninginn hvað miðasölu varðar.  Samkvæmt vef Box Office Mojo hefur myndin þénað um 111 milljónir dollara á heimsvísu, 13 milljarða íslenskra króna.  Í Bandaríkjunum nemur upphæðin 75 milljónir dollara.

Til samanburðar má nefna að Contraband, síðasta mynd Baltasar í Hollywood, þénaði 66,5 milljónir dollara í miðasölu vestanhafs, 96 milljónir á heimsvísu eða ellefu milljarða íslenskra króna.