Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Leggjast yfir áætlanir og reyna að flýta uppbyggingu

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, og Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfisráðherra, finnst skjóta skökku við að gjald sé innheimt í ákveðnum tilgangi en hluti þess svo notaður í eitthvað annað. Þeir ætla að fara yfir áætlanir um uppbyggingu snjóflóðavarna með það að markmiði að reyna að flýta framkvæmdum. Þetta var ákveðið á ríkisstjórnarfundi í morgun.

 

Sérfræðingar óttast að verkið taki áratugi í viðbót

Það hefur dregist um tíu ár að ljúka uppbyggingu snjóflóðavarna og enn á eftir að reisa varnargarða á átta svæðum þar sem snjóflóðahætta er mikil. Upphaflega stóð til að ljúka uppbyggingunni fyrir árið 2010, verklokum var svo frestað til 2020 og ljóst að ekki verður lokið við varnir á þeim átta svæðum sem eftir standa á þessu ári. Sérfræðingar, sem unnið hafa að snjóflóðavörnum, hafa skorað á stjórnvöld að auka fjárheimildir ofanflóðasjóðs til að flýta fyrir uppbyggingu. Ella verði henni ekki lokið fyrr en um eða eftir miðja öldina. 

Vill reyna að flýta framkvæmdum

Árlega leggur ríkið gjald á allar brunatryggðar húseignir í landinu. Í lögum um snjóflóðavarnir segir að gjaldið eigi að nota til að greiða kostnað við varnir gegn ofanflóðum en síðastliðin ár hefur það líka verið nýtt til annarra verkefna. Fjárheimildir sjóðsins eru ákveðnar á fjárlögum hvers árs. Í ár fékk sjóðurinn rúman milljarð en ríkið innheimtir líklega tæpa þrjá milljarða í ofanflóðagjald. Ofanflóðasjóður heyrir undir Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfisráðherra. „Ég og fjármálaráðherra munum setjast niður og fara yfir þær áætlanir sem hafa verið gerðar út frá þeim fjárheimildum sem hafa verið í kerfinu með það að augnamiði að reyna að flýta framkvæmdum og koma þá með áætlun sem geti gert það,“ segir Guðmundur. Hann svarar því ekki beint hvort til standi að veita sjóðnum auknar fjárheimildir. „Við erum að skoða hvernig við getum gengið í þetta mikilvæga verkefni, að reyna að flýta þessum framkvæmdum, því við erum algerlega meðvituð um að það er gríðarlega mikilvægt.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Telur þörf á að skoða garðinn á Flateyri sérstaklega

Guðmundur Ingi segir einnig mikilvægt að skoða þær varnir sem fyrir eru á Flateyri. „Við vorum að fá þær fregnir frá Veðurstofunni að þetta sé sennilega eitt stærsta flóð sem hefur fallið, þess vegna þarf að skoða það líka sérstaklega.“

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Flóðin sem féllu á þriðjudagskvöld náðu bæði yfir varnargarða.

Þriðjungur gjaldsins nýtist til uppbyggingar

Í ár er útlit fyrir að einungis þriðjungur gjaldsins, sem innheimt verður, skili sér til sjóðsins. Hvers vegna hefur fyrirkomulagið verið þannig að einungis hluti gjaldsins skilar sér til sjóðsins á fjárlögum ár hvert? Guðmundur Ingi segir að eftir hrun hafi fjárheimildir til uppbyggingar snjóflóðavarna verið minnkaðar. „Fjármagn jókst svo á tímabili aftur en hefur ekki náð upp í það gjald sem tekið er. Ég tek bara undir þau sjónarmið að þetta er það sem við þurfum að reyna að laga með það að markmiði að klára þessi verkefni á skemmri tíma heldur en gæti orðið ef við aukum ekki í.“

Guðmundur Ingi telur fyrirkomulagið ekki brjóta gegn lögum um snjóflóðavarnir frá árinu 1997. Í þeim segir að fjármagnið skuli nýtast til að byggja upp ofanflóðavarnir og meta hættu vegna náttúruvár. Þar segir líka að sjóðurinn fái fjárveitingu á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum. Sú fjárheimild byggist á rekstri sjóðsins og framkvæmdaáætlun hans til næstu fimm ára. Framkvæmdaáætlunin á að miðast við markmið reglugerðar um hættumat vegna ofanflóða. „Ég veit ekki betur en að það hafi erið farið að lögum og vona það, það er alveg ljóst að þegar um svona tekjustofna er að ræða, sem kveða á um ákveðin verkefni þá er mikilvægt að við reynum að nota fjármagnið í það. Það hefur ekki verið að fullu gert og við vitum það en skulum vona að nú séum við að horfa til betri tíðar. Við fjármálaráðherra erum að fara að setjast yfir þetta mikilvæga verkefni. “

Vilji löggjafans að gjaldið skili sér til lengri tíma

Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, vonar að hægt verði að búa svo um hnútana að gjaldið skili sér betur til uppbyggingar. Hvenær verður vinnu ráðherranna tveggja lokið?  „Það væri mjög æskilegt ef við gætum uppfært áætlanir þannig að samhliða nýrri fjármálaáætlun sæum við merki þess að við værum að spýta í lófana og skila þessum fjármunum betur til þessara mikilvægu framkvæmda.“

Bjarni segir að hluti ofanflóðagjaldsins hafi farið til annarra verkefna í öllum ráðuneytum. Sú tilhögun standist lög. „Við erum að tala hérna um áratuga þróun, það er ekki áskilið að á hverju ári fari fjármunirnir út til framkvæmda í samræmi við innheimt hlutfall en yfir lengri tíma er það klárlega vilji löggjafans að þetta skili sér í framkvæmdirnar. Við höfum reyndar í millitíðinni afnumið þessa sérstöku tengingu þannig að þetta fyrirkomulag þarf að kallast á við aðrar reglur sem við erum með, til dæmis um að það sé svigrúm miðað við afkomureglur ríkissjóðs til þess að standa undir þessum útgjöldum.“

„Menn hysji upp um sig brækurnar“

Bjarni telur að annað hvort þurfi að lækka ofanflóðsgjaldið eða skila því öllu til ofanflóðasjóðs. „Ég er þeirrar skoðunar pólitískt séð að menn eigi ekki að leggja gjöld á fasteignir í landinu án þess að skila þeim til þeirra verkefni sem eru réttlætingin fyrir gjaldinu. Ef menn framkvæma fyrir lægri fjárhæðir til langs tíma þá á einfaldlega að lækka gjaldið, nú eða hysja upp um sig brækurnar og skila gjaldinu til þessa málaflokks.“

Þarf kannski að endurskoða þessi gjöld öll í ljósi þess að búið er að aftengja gjöldin og útgjöld ríkisins? „Ég ætla ekkert að fullyrða um það en tilgangurinn með þeirri vinnu sem við erum að ákveða hér, ég og umhverfisráðherrann, að ráðast í, er að uppfæra okkar áætlanir. Góðu fréttirnar eru þær að Ofanflóðasjóður hefur verið að störfum og hættumat hefur verið framkvæmt. Við höfum vissulega framkvæmt víða í mannvirkjagerðinni, það er forsendan fyrir því að hér bjargaðist allt á Flateyri þegar upp var staðið þó að vissulega hafi staðið tæpt með mannslíf.“

Reiknast allt á gjaldahliðina

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Er eitthvað því til fyrirstöðu að nýta þá milljarða sem eru í sjóðnum til þess að byggja hratt upp varnir á þeim átta stöðum þar sem þær skortir enn? „Það er rétt að ríkissjóður hefur á þessum árum, sem liðin eru frá því þessi gjaldheimta varð ákveðin, innheimt um það bil 15 milljarða um fram það sem framkvæmt hefur verið fyrir. Ef við ætlum hins vegar að setja núna 15 milljarða á útgjaldahliðina þá er nauðsynlegt að það sé svigrúm fyrir því án þess að við rekumst á markmið okkar um heildarafkomu ríkissjóðs. Þetta reiknast allt á gjaldahliðina. Það er það sem ég er að vísa til, það er hið tæknilega dæmi sem við þurfum að leysa úr saman við gerð fjármálaáætlunar.“ Þá séu auðvitað takmörk fyrir því hversu mikið sé hægt að framkvæmda á einu ári. „Það þarf að hanna, bjóða út og framkvæma. Það er bara ekki tímabært að svara þessu nákvæmlega fyrr en við ljúkum vinnunni milli ráðuneytanna um uppfærða áætlun, raunhæfa áætlun um það hvenær við getum lokið því sem að var stefnt og er fjármagnað með þessu gjaldi.“

Þurfa íbúar á þessum svæðum bara að skilja það að uppbyggingin þarf að taka mið af stöðunni í hagkerfinu?

Ég ætla bara að segja að uppbygging á mannvirkjum er auðvitað bara einn liður af aðgerðum stjórnvalda til að tryggja öryggi fólks. Við erum sömuleiðis með rýmingaráætlanir og við erum með vöktun á stöðunni á hverjum stað. Þegar þú spyrð að því hvort fólk á þessum svæðum þurfi að skilja að við þurfum að taka mið af stöðu ríkissjóðs hverju sinni þá er kannski nær að spyrja eiga þeir sem hafa greitt þetta gjald að þurfa að skilja það að það renni ekki til þeirra verkefna sem að var stefnt. Svar mitt við því er að það er ekki hægt að réttlæta það, að kynna til sögunnar sérstakan gjaldstofn án þess að nýta hann í þessum tilgangi, það er það sem ég er alltaf að endurtaka hér.“