Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Leggjast gegn nýjum virkjunum í þjóðgarði

06.01.2020 - 16:34
Mynd: Stjórnarráðið / RÚV
Landvernd leggst eindregið gegn því að heimilt verið að reisa nýjar virkjanir innan fyrirhugaðs miðhálendisþjóðgarðs. Það samræmist ekki skilgreiningu á þjóðgarði og gæti gengisfellt hugtakið. Stefnt að því að lög um miðhálendisþjóðgarð taki gildi í byrjun næsta árs.

32% af flatarmáli landsins 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra fer í fundaherferð eða kynningarferð á næstu dögum um stofnun hálendisþjóðgarðs. Hann mun efna til 7 funda víðs vegar um landið og byrjar í Borgarnesi á morgun. Stefnt er að því að leggja fram frumvarp á Alþingi um hálendisþjóðgarðinn á þessu ári. Samkvæmt drögum sem nú eru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda eiga lögin að taka gildi í byrjun næsta árs. Það hefur lengi verið talað um stofnun hálendisþjóðgarðs. Samkvæmt frumvarpsdrögunum mun hann ná yfir 32% af flatarmáli Íslands. Tæplega helmingur þess landsvæðis er þegar friðlýstur. Þar vegur þyngist Vatnajökulsþjóðgarður.

Heimilt að reisa nýjar virkjanir

En það eru skiptar skoðanir um hálendisþjóðgarðinn. Eitt af því sem tekist er á um er hvort heimila eigi frekari virkjanir innan þjóðgarðsins. Samkvæmt frumvarpinu verður ekki hreyft við þeim virkjunum en nú þegar eru innan hins væntanlega þjóðgarðs sem kannski gefur að skilja. Hins vegar er kveðið á um það í frumvarpsdrögunum að heimilt verði að taka til skoðunar að byggja nýjar virkjanir en þó aðeins þær sem skilgreindar eru í orkunýtingarflokki og biðflokki 3. áfanga rammaáætlunar sem reyndar hefur ekki enn verið samþykktur á Alþingi. Samkvæmt frumvarpsdrögunum verður bannað að leggja nýjar háspennulínur í lofti í þjóðgarðinum.

Margfaldar gaddavírsgirðingar

Segja má að gagnrýnin komi úr tveimur gagnstæðum áttum og á ólíkum forsendum. Í áramótapistli Guðna Jóhannessonar, orkumálastjóra, er varað við að þrengt verði að virkjanakostum. Hann segir að starfsemi auðlindaráðuneytis virðist ganga út á að reisa margfaldar gaddavírsgirðingar í kringum framtíðarkosti til virkjunar bæði jarðhita og vatnsfalla. Það sé gert undir sakleysislegum og auðseljanlegum formerkjum eins og með stofnun hálendisþjóðgarðs og friðlýsingu náttúrsvæða.

„Hins vegar er vandlega sneitt hjá því að meta áhrif þessa á orkuöryggi, atvinnulíf, hagvaxtarmöguleika okkar til lengri tíma, framlag okkar til loftslagsvænnar raforkuvinnslu og svona mætti lengi telja," segir Guðni í pistlinum.

Ekki í samræmi við skilgreininguna

Landvernd styður stofnun Miðhálendisþjóðgarðs en gagnrýnir og leggst gegn því að heimilt verði að virkja innan hans. Auður Önnu Magnúsardóttir, framkvæmdastjóri Landverndar segir að það sé einfaldlega ekki í samræmi við skilgreiningu á þjóðgarði.

„Þjóðgarðar eru þannig, og meira segja skilgreindir í náttúrverndarlögum að það á ekki að fara í stórar framkvæmdir innan þjóðgarða nema að þær samræmist markmiðum þjóðgarðsins. Orkuvinnsla innan þjóðgarðs samræmist ekki verndarmarkmiðum," segir Auður.

Landvernd segir í umsögn um frumvarp um miðhálendisþjóðgarð að óskynsamlegt sé að virkjanir sem fyrir eru séu innan þjóðgarðsins. Sú skipan geti gengisfellt hugtakið þjóðgarður. Samtökin leggja til að virkjanir eða iðnaður innan fyrirhugaðs þjóðgarðs verði skilgreindur sem jaðarsvæði þjóðgarðsins þar sem gæta þurfi mikillar varfærni í starfsemi svo hún hafi ekki neikvæð áhrif á garðinn.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV