Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Leggja til að Snowden fái ríkisborgararétt

04.07.2013 - 14:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn Pírata, Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, Helgi Hjörvar, Samfylkingu og Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, hafa lagt fram frumvarp til laga um veitingu ríkisborgararétt þar sem lagt er til að Edward Snowden fái íslenskan ríkisborgararétt.

Ögmundur vakti máls á máli Edwards Snowden við upphaf þingfundar í morgun. Hann beindi orðum sínum til Unnar Brár Konráðsdóttur, formanns allsherjarnefndar, og lagði til að Snowden yrði boðin landvist á Íslandi. „Alþingi Íslendinga og Íslendingar hafi forgöngu um það að bjóða þessum einstaklingi sem heimsbyggðin öll á skuld að gjalda landvist,“ sagði Ögmundur á þingi í morgun.

Unnur Brá upplýsti að umsókn um ríkisborgararétt hafi ekki komið frá Snowden og samkvæmt reglum verði umsækjandi að vera staddur á landinu.