Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leggja til að flugeldadögum verði fækkað verulega

06.03.2020 - 17:10
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Nefnd sem fjallaði um neikvæð áhrif mengunar frá flugeldum leggur til að sá tími sem almenningi er heimilt að nota flugelda verði styttur verulega. Heimilt verði að nota flugelda frá klukkan fjögur á gamlársdag til klukkan tvö á nýársnótt, frá klukkan fjögur til tíu á nýársdag og frá klukkan fjögur til klukkan tíu á þrettándanum. 

Heimilt verði að fresta þrettándanum

Ef skilyrði verða óhagstæð, til dæmis miklar froststillur eða hvassviðri, og ekki hægt að skjóta upp á tilgreindum leyfðum tímasetningum verði hægt að heimila notkun á einum tilteknum degi en þó eigi lengur en næsta sunnudag eftir þrettánda. Enn fremur geti sveitarfélög ákveðið að færa þrettándann og halda upp á hann á laugardegi eða sunnudegi fyrstu vikuna i janúar. Samkvæmt núgildandi reglugerð um flugelda er almenn notkun þeirra heimil frá 28. desember til 6. janúar. 

Starfshópurinn lagði fram sjö tillögur að úrbótum, sem lúta að eftirtöldu:

  • skammtímaaðgerðum í áætlunum heilbrigðisnefnda,
  • starfsleyfisskyldu og eftirliti með skoteldasýningum,
  • þrengri tímamörkum um almenna notkun skotelda,
  • fækkun söludaga,
  • auknu eftirliti með skoteldum,
  • viðurlögum og stjórnvaldssektum og
  • skipun starfshóps til að fjalla um fjármögnun björgunarsveita

Að auki lögðu fulltrúar heilbrigðisráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í starfshópnum til að almennri notkun stærri flugelda og skotkaka yrði hætt 2030 og að eingöngu yrði heimilt að skjóta upp skoteldum á tilteknum afmörkuðum svæðum. Fulltrúi dómsmálaráðuneytisins lagði til úrbætur er varða ítarlegri mælingar á mengun, fjölgun mælistöðva, greiningu á uppruna mengunar, rannsóknir og bann við innflutningi á skoteldum á priki.

Samstaða um að grípa til aðgerða

Í tilkynningu segir að dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra séu einhuga um mikilvægi þess að farið sé í raunhæfar aðgerðir til að bæta lýðheilsu almennings vegna skotelda og um leið að tryggja öfluga starfsemi björgunarsveita. Jafnframt að hrundið verði í framkvæmd þeim aðgerðum sem samstaða var um í starfshópnum.

Varðandi tillögu fulltrúa heilbrigðis- og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, sem snýr að mögulegri takmörkun á notkun skotelda, verður hún skoðuð í ljósi reynslunnar af takmörkunum á lengd sölutíma og skottíma sem og niðurstöðu hóps um fjármögnun björgunarsveita.