Leggja áherslu á skólamál

Mynd með færslu
 Mynd:
Sjálfstæðismenn og Björt framtíð kynntu í dag meirihlutasamstarf sitt í Kópavogi sem þeir nefna Marbakkameirihlutann, með vísan til tveggja fyrstu bæjarstjóranna í Kópavogi. Áhersla er lögð á skólamál og að greiða niður skuldir sveitarfélagsins.

Innleiða á spjaldtölvur í skólum bæjarins og nýta upplýsingatæknina í skólastarfinu. Einnig á að setja lýðheilsustefnu fyrir Kópavogsbæ.

Ármann Kr. Ólafsson verður áfram bæjarstjóri, Theódóra S. Þorsteinsdóttir, Bjartri framtíð, verður formaður bæjarráðs, og Margrét Friðriksdóttir, Sjálfstæðisflokki, verður forseti bæjarstjórnar.

Kynningin fór fram við Marbakkabraut þar sem fyrstu tveir bæjarstjórarnir í Kópavogi bjuggu: hjónin Finnbogi Rútur Valdimarsson og Hulda Dóra Jakobsdóttir. Finnbogi varð fyrsti bæjarstjóri Kópavogs, eftir að bærinn fékk kaupstaðarréttindi 1955, en hafði áður verið oddviti Kópavogshrepps. Starfinu gegndi Finnbogi í tvö ár en síðan fór Hulda með starfið í fimm ár. Hulda var fyrsta konan til að gegna starfi bæjarstjóra á Íslandi. Þau voru kosin fyrstu heiðursborgarar Kópavogs árið 1976.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi