Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leggja áherslu á jafnréttisbaráttu feðra

Mynd með færslu
Gunnar Kristinn Þórðarson. Mynd: RÚV
Karlalistinn í Reykjavík leggur áherslu á jafnréttisbaráttuna út frá reynslu karlmanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Oddviti þeirra segir að þeir hafi orðið að bjóða fram enda hafi þeir ekki séð eins grímulausa andúð stjórnmálaflokkanna gegn foreldrajafnrétti og á undanförnum mánuðum.

Á 25 manna framboðslista Karlalistans eru þrjár konur og var hluti frambjóðenda samankominn á Horninu í Hafnarstræti að kynna stefnumálin í dag. 

„Stefnumálin varða barnaverndarmál, það varðar innheimtu meðlaga, félagsþjónustu, fjárhagsaðstoð, stöðu drengja í skóla og leikskólamál,“ segir Gunnar Kristinn Þórðarson, oddviti Karlalistans í Reykjavík.

Þessi stefnumál ykkar helstu tengjast þau öll feðrum? „Ekki öll, við auðvitað leggjum áherslu á jafnréttisbaráttuna út frá reynslu feðra. Og varðandi barnavernd þá viljum við aukna barnavernd og að það sé faglega ráðið í barnaverndarnefndir með sérstaka áherslu á umgengnistálmanir,“ segir Gunnar.

Karlalistinn vill að félagsþjónustan verði efld og sérstaklega verði hugað að feðrum sem búi við fátækt. Annað hvert umgengnisforeldri mun vera á vanskilaskrá. Gunnar Kristinn segir Karlalistann styðja jafnrétti og réttindabaráttu kvenna. „En okkur finnst að femínisminn og kvennafræðin hafi gleymt þessu sviði jafnréttisbaráttunnar sem við byggjum á reynslu karlmanna.“

En finnst Gunnari Kristni þá að stefnumál þeirra hafi ekki hlotið hljómgrunn hjá stjórnmálaflokkum sem nú stjórni í borginni? „Við höfum lengi vitað af andstöðu stjórnmálaflokkanna við foreldrajafnrétti en höfum aldrei séð svona grímulausa andúð eins og á undanförnum mánuðum. Þá sjáum við það að við verðum að bjóða okkur fram og búa okkur til stöðu og vettvang á sviði stjórnmálanna.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV